Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 01. nóvember 2021 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fjölskylda Hólmars flutt til Íslands - „Þarf að hugsa þetta vel"
Hólmar Örn á Kaplakrikavelli. Rosenborg mætti FH í Sambandsdeildinni í sumar.
Hólmar Örn á Kaplakrikavelli. Rosenborg mætti FH í Sambandsdeildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Hólmar Örn Eyjólfsson er leikmaður Rosenborg í Noregi. Hólmar er 31 árs varnarmaður sem leikið hefur erlendis síðan árið 2008. Hólmar hefur að undanförnu verið orðaður við heimkomu til Íslands og verið orðaður við bæði FH og Val. Fótbolti.net ræddi við Hólmar í dag.

Samningsbundinn en fjölskyldan flutt heim
„Ég á tvö ár eftir af samningi eftir þetta tímabil og ég er ekki alveg 100% á því hver framtíðin verður með það. Ég þarf að setjast niður með Rosenborg eftir tímabilið og skoða þau mál. Staðan er þannig að ég er með tveggja ára samning hérna og maður planar eftir því," sagði Hólmar.

Er Ísland að kalla á þig núna? „Fjölskyldan er flutt heim, konan fékk góða vinnu og auðvitað vill maður vera með fjölskyldu sinni. Á sama tíma finn ég að ég er ennþá í góðu formi, langar að spila í einhver ár í viðbót. Maður þarf að hugsa þetta vel í hvaða átt maður fer með þetta."

Skoðar stöðuna eftir tímabilið - Verið á bekknum
Hefuru þegar byrjað að ræða þín mál við Rosenborg? „Nei, við eigum fimm leiki eftir af tímabilinu og öll einbeiting fer á það. Í kjölfarið sjáum við hvað félagið vill gera og hvaða möguleikar eru í stöðunni."

Hólmar var á bekknum í síðustu þremur leikjum en á undan því hafði hann spilað þrjá leiki í röð. Hver er staða þín í liðinu?

„Það er búið að vera mikið um „róteringar" á öllu tímabilinu. Ég lenti í „róteringunni" í síðustu viku og þeir sem spiluðu síðustu leiki í miðverðinum stóðu sig mjög vel. Svona er líf fótboltamannsins, stundum er maður að vinna sér inn stöðu og stundum tapar maður stöðu í liðinu. Það er bara eins og staðan er og þá reynir maður að vinna sig til baka inn í liðið."

Ekki sáttir með árangurinn
Rosenborg er í 4. sæti norsku Eliteserien. Hvernig hefur þetta tímabil verið? „Þetta er búið að vera rosamikið upp og niður. Krafan hér er alltaf titill og riðlakeppni í Evrópu. Menn eru ekki sáttir með árangurinn og núna erum við að berjast um að komast í Evrópu á næsta ári."

Rosenborg er tveimur stigum á eftir Viking sem er í 3. sæti deildarinnar. „Já, mér finnst raunhæft að ná Evrópusæti. Við erum með gríðarlega gott lið. Við erum ekki búnir að vera á pari miðað við gæðin í hópnum þannig ef við náum að rífa okkur í gang og klára þessa fimm leiki eins og menn þá ættum við að ná því," sagði Hólmar.

Nánar var rætt við Hólmar og kemur seinni hluti viðtalsins í dag.
Athugasemdir
banner
banner