Real Madrid girnist Palmer - Arsenal og Man Utd berjast um David - City reynir að lokka Wirtz frá Leverkusen
   fös 01. nóvember 2024 10:30
Sverrir Örn Einarsson
Hvernig var dómgæslan í Bestu deildinni að mati leikjapenna?
Pétur Guðmundsson var með hæstu meðaleinkunn sumarsins frá pennum Fótbolta.net
Pétur Guðmundsson var með hæstu meðaleinkunn sumarsins frá pennum Fótbolta.net
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Vilhjálmur var valinn bestur en varð aðeins fjórði ef miðað er við meðaleinkunn
Vilhjálmur var valinn bestur en varð aðeins fjórði ef miðað er við meðaleinkunn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías Ingi fékk bæði tíu og núll í einkunn í sumar
Elías Ingi fékk bæði tíu og núll í einkunn í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór var ekki að heilla þá sem fjölluðu um leiki í Bestu deildinni fyrir Fótbolta.net
Arnar Þór var ekki að heilla þá sem fjölluðu um leiki í Bestu deildinni fyrir Fótbolta.net
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erlendur hefur átt betra sumar að mati margra en er samt meðal efstu manna í einkunnagjöf.
Erlendur hefur átt betra sumar að mati margra en er samt meðal efstu manna í einkunnagjöf.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dómurum leið vel að dæma á Ísafirði að mati fréttaritara Fótbolta.net
Dómurum leið vel að dæma á Ísafirði að mati fréttaritara Fótbolta.net
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson var valin dómari ársins af Fótbolti.net á dögunum en val hans var kunngjört í Innkastinu að loknum lokaleik tímabilsins þar sem hann dæmdi hinn eftirminnilega úrslitaleik Víkinga og Breiðabliks þar sem Blikar tryggðu sér sigur i Bestu deildinni með 3-0 sigri.

Fréttaritari ákvað að rýna aðeins í gögnin og skoða frammistöðu dómara yfir tímabilið í Bestu deild karla gegnum skrif annarra fréttaritara Fótbolta.net og sjá hvort tölfræðin sé sammála vali sérfræðinganna. Upp úr krafsinu komu nokkrir áhugaverðir molar sem verður stiklað á hér en vert er að benda á að allt er þetta til gamans gert og alls ekki byggt á vísindalegum grunni.

162 leikir voru leiknir í Bestu deildinni þetta sumarið og voru þeir dæmdir af 14 dómurum. Þegar allar einkunnir sem fréttaritarar Fótbolta.net eru lagðar saman fæst út að dómarar í Bestu deild karla hlutu meðaleinkunn upp á 6.76. Köfum aðeins dýpra í tölfræðina hjá dómurum sem dæmdu að lágmarki fimm leiki í deildinni í sumar.

Pétur var bestur samkvæmt einkunnagjöf
Lögregluvarðstjórinn Pétur Guðmundsson skákar Vilhjálmi Alvari þegar litið er til meðaleinkunnar hans frá pennum Fótbolta.net yfir tímabilið. Meðaleinkunn Péturs yfir tímabilið var 7.64 og er hann talsvert ofar en næsti maður Elías Ingi Árnason sem lauk tímabilinu með meðaleinkunn upp á 7,38. Erlendur Eiríksson er svo þriðji með 7,23 og fjórði er svo dómari ársins Vilhjálmur Alvar Þórarinsson með 7.05.

Lægstu meðaleinkunn dómara sem dæmdu að lágmarki 5 leiki þetta sumarið á lögmaðurinn Arnar Þór Stefánsson eða einkunn upp á 6,33. Skammt fyrir ofan hann er svo Ívar Orri Kristjánsson sem hlýtur meðaleinkunn upp á 6.42 fyrir sína frammistöðu. Sigurður Hjörtur Þrastarson fyllir svo botn þrjá með slétta 6,5 í meðaleinkunn.

Fjórar tíur og eitt núll
Þrír dómarar fengu 10 í einkunn fyrir frammistöðu sína í sumar, Þar fer Pétur Guðmundsson fremstur og fékk 10 í tvígang . Fyrst fyrir frammistöðu sína í leik ÍA gegn Vestra í 6.umferð þann 11. maí og svo aftur í 27.umferð um liðna helgi þar sem hann fékk 10 fyrir dómgæsluna í leik Vals og ÍA.

Vilhjálmur Alvar fékk 10 einu sinni fyrir frammistöðu sína í sumar. Hann dæmdi leik Stjörnunar og FH í 10.umferð og fékk fyrir það 10 frá lýsanda Fótbolta.net á vellinum.

Þriðji dómarinn sem fékk 10 í einkunn á tímabilinu var svo Elías Ingi Árnason. Hann fékk 10 fyrir frammistöðu sína í leik KR og Víkinga í 20.umferð.

Elías Ingi á svo líka lægstu einkunn sumarsins en hann fékk núll í einkunn fyrir frammistöðu sína í 26.umferð deildarinnar þar sem hann dæmdi eftirminnilegan slag ÍA og Víkings, Nokkuð sem menn hafa velt fyrir sér er hvort að leikurinn og eftirmálar hafi haft af honum nafnbótina dómari ársins en Elías var búinn að eiga frábært mót að margra mati fram að því.

Þrír fréttaritarar voru að baki tíunum fjórum sem gefnar voru. Sölvi Haraldsson fær líklega jólakort frá Pétri Guðmundssyni en hann gaf honum 10 í bæði skiptin sem Pétur hlaut þá einkunn. Stefán Marteinn Ólafsson hreifst af frammistöðu Vilhjálms Alvars í Garðabæ og Haraldur Örn Haraldsson skellti 10 á Elías í Vesturbæ.

Það var svo Sölvi Haraldsson sá mikli ÍRingur sem varð fyrir vonbrigðum með sveitunga sinn og henti núlli á hann á Akranesi á dögunum. Eitthvað sem hefur eflaust verið rætt yfir kaffibolla í Skógarseli.


Aðrar einkunnir
Alls fimmtán sinnum gáfu pennar Fótbolta.net dómara leiks 9 í einkunn á tímabilinu sem verður að teljast nokkuð gott. Einkunnin 8 er einnig gríðarlega algeng og hvað þá talan 7 sem var langalgengust. Í raun svo algeng að ég sá engan hag i að telja hve oft..

Á hinum endanum sást talan 1 í einkunnagjöf í lokaumferð deildarinnar. En þá einkunn fékk Ívar Orri Kristjánsson fyrir frammistöðu sína í leik KR gegn HK Tveir dómarar fengu einkunnina 2 í leik í sumar. Það voru þeir Gunnar Oddur Hafliðason og Twana Kahlid Ahmed. Sigurður Hjörtur Þrastarson og Jóhann Ingi Jónsson sáu báðir einkunnina 3 í sumar og risanöfn eins og Vilhjálmur Alvar og Erlendur Eiríksson þurftu báðir að horfa upp á fall frá fréttariturum Fótbolta.net með einkunn upp á 4 eftir leik í sumar.

Hver var gjafmildur og hver var grimmastur af leikjapennum?
Til að gæta sanngirni þá dreg ég línuna við að leikjapennar hafi skrifað um að lágmarki fimm leiki þetta sumarið til þess að vera gjaldgengir. Þeir sem féllu í þann flokk voru alls 10 talsins en í heildina skrifuðu 24 einstaklingar um leik í Bestu deild karla fyrir hönd Fótbolta.net í sumar.

Þekkt nöfn sem náðu ekki tilsettum fjölda voru til að mynda Elvar Geir Magnússon og sá er nefndur er sá lærði eða Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson. Þeir báðir fjölluðu einungis um fjóra leiki Bestu deildarinnar í textalýsingu.

Hákon Dagur Guðjónsson er sá leikjapenni sem gaf dómurum hæstu einkunn þetta sumarið. Hann skrifaði um sex leiki Vestra á Kerecis vellinum á Ísafirði og situr örugglega á toppnum. Hákon gaf dómara leiks aldrei lægri einkunn en 8 á tímabilinu og endaði með meðaleinkunn upp á 8,33. Eitthvað virðist lika vera í loftinu á Ísafirði því dómarar dæmdu hvergi betur í sumar miðað við einkunnagjöf Fótbolti.net en þeir geta verið stoltir af árangri sínum þar með 7,67 í meðaleinkunn á Kerecisvellinum.

Stöðugastur af leikjapennum Fótbolta.net var Matthías Freyr Matthíasson. Hann skrifaði um alls sjö leiki í Bestu deildinni í sumar og gaf dómurum að meðaltali 8,0 í einkunn. Í sex af þeim sjö leikjum gaf hann dómara leiksins 8,5 í einkunn. Eini leikurinn sem Matthías setti ekki 8,5 á frammistöðu dómara var leikur Breiðabliks og Vals á Kópavogsvelli þann 15.ágúst síðastliðinn. Villhjálmur Alvar hefur þar greinilega ekki átt sinn besta dag og fékk aðeins 5 í einkunn frá Matthíasi.

Kári Snorrason mun herja á huga dómara frameftir vetri en hann var lang grimmastur af þeim pennum Fótbolta.net sem fjölluðu um Bestu deild karla í ár og skrifuðu að lágmarki um fimm leiki. 6,06 er meðaltal þeirra einkunna sem Kári gaf dómurum þetta sumarið í 15 leikjum. Hans hæsta einkunn var 9 sem féll í skaut Elíasar Inga fyrir leik FH og Vals. Lægstur var hann svo í lokaumferð neðri hluta deildarinnar þar sem Ívar Orri Kristjánsson fékk 1 fyrir leik KR og HK.

Það eru þó pennar með lægri meðaleinkunn þetta sumarið sem ekki náðu tilskildum leikjafjölda, Baldvin Már Borgarson var ekki ánægður með dómarann í þeim tveimur leikjum sem hann fjallaði um í Bestu deildinni þetta sumarið. 3 og 6 í einkunn sem gerir meðaltal upp á 4,5

Hafliði Breiðfjörð er á sömu slóðum með sitt meðaltal einnig með 4,5 í meðaleinkunn dómara eftir tvo leiki. 4 og 5 fengu dómarar í einkunn frá Hafliða í leikjunum tveimur sem hann skrifaði um í Bestu deild karla.

Að lokum er vert að taka fram að þessi samantekt er aðeins til gamans gerð og er á engan hátt vísindaleg úttekt á frammistöðu dómara á tímabilinu.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner