Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 02. janúar 2023 16:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sveindís þarf ekki að taka skref til baka - „Þá eru mörg lið í röð"
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísabet og Sveindís ræða málin.
Elísabet og Sveindís ræða málin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveindís í leik með Wolfsburg gegn Barcelona.
Sveindís í leik með Wolfsburg gegn Barcelona.
Mynd: EPA
Sveindís Jane Jónsdóttir er ein efnilegasta fótboltakona í heimi en hún hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína með íslenska landsliðinu undanfarin ár.

Hún hóf atvinnumannaferil sinn hjá Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún fékk góðan skóla hjá Elísabetu Gunnarsdóttur, þjálfara liðsins. Sveindís lék vel í Svíþjóð og fékk gott umtal þar.

„Sveindís er einstök. Ég hef ekki þjálfað marga eins og Sveindísi," sagði Elísabet í hlaðvarpsþætti hér á Fótbolta.net í síðustu viku er hún var spurð út í Sveindísi. Hún hefur mikla trú á henni.

„Þegar ég segi það þá er ég að meina að hún æðir áfram, hún er ekki hrædd við neitt. Hún er ekki að passa sig á því að taka rétt skref eða eitthvað þannig - hún æðir bara áfram. Þú setur hana inn á fótboltavöll, gefur henni bolta og hún fer og stútar öllu í kringum sig. Hún veit ekkert hvað hún er að gera stundum og það er það frábæra við hana. Hún æðir áfram með boltann og kemst í gegnum allt sem er fyrir framan hana. Svo þarftu bara að kenna henni að klára sóknirnar."

„Stærsta vandamálið þegar hún kom til okkar var að hún gat farið upp völlinn í brjáluðum hraða og tekið aðra leikmenn á - henni tókst í 90 prósent tilvika að drepa þær - en svo kom fyrirgjöf sem var of föst eða of löng. Mér fannst hún ekki klára sóknirnar vel. Hún fór að laga þetta. Það voru allir að tala um mörkin sem hún skoraði en hún býr til sjúklega mikið fyrir aðra líka," sagði Elísabet en hún kom einnig inn á það að Sveindís hefði unnið mikið í varnarleik sínum í Svíþjóð.

Sveindís er núna á mála hjá Wolfsburg, sem eru ríkjandi meistarar í Þýskalandi. Um er að ræða eitt sterkasta félagsliðið í heiminum. Sveindís hefur ekki verið að fá neitt rosalega mikinn spiltíma, en hefur verið að gera mjög vel við þann tíma sem hún hefur fengið inn á vellinum.

Hún hefur aðeins byrjað einn deildarleik á þessari leiktíð en komið inn á sem varamaður níu sinnum. Hún hefur alls spilað 291 mínútu í þýsku úrvalsdeildinni.

„Mér finnst hún vera að fá alltof lítinn leiktíma miðað við það hvað hún gerir þegar hún fær að spila. Öll hennar tölfræði talar fyrir því. Hún getur klárlega orðið ein sú besta í heiminum í sinni stöðu, ef ekki sú besta."

„Ég get alveg lofað þér því að ef leiktíminn kemur ekki í Wolfsburg að þá þarf hún ekki að taka neitt skref niður á við til að spila. Hún fer þá bara í eitthvað annað stórlið. Það eru fullt af félögum sem hafa áhuga á Sveindísi. Ef ég ætti að giska, þá eru mörg lið í röð. Ég hugsa að hún gæti farið í Barcelona, Manchester City og öll þessi félög."

Hún er með eiginleika sem aðrir leikmenn eru ekki með.

„Ég held að hún sé á frábærum stað í Wolfsburg. Þar er verið að aga hana til og kenna henni meira taktískt. Ef við tökum ekki frá henni tilfinninguna fyrir því sem hún trúir á þegar hún er með boltann þá verður hún best í heimi í sinni stöðu. Hún er það góð. Hún þarf kannski að bæta það aðeins að skora með skalla. Það er engin sem hoppar hærra en hún. Ef hún getur unnið í því að skalla þessa bolta inn, þá verður hún gjörsamlega óstöðvandi," segir Elísabet.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Elísabet leyfir smábænum að dreyma - Hvað tekur svo næst við?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner