Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 02. maí 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 4. sæti
4. sæti: Grindavík
Lengjudeildin
Grindavík er spáð fjórða sæti.
Grindavík er spáð fjórða sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurbjörn Hreiðarsson.
Sigurbjörn Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dion Acoff gekk í raðir Grindavíkur fyrir nokkrum vikum síðan.
Dion Acoff gekk í raðir Grindavíkur fyrir nokkrum vikum síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Þorsteinsson er hættur.
Gunnar Þorsteinsson er hættur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Aron Dagur Birnuson.
Markvörðurinn Aron Dagur Birnuson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. Grindavík, 186 stig
5. Grótta, 160 stig
6. Vestri, 124 stig
7. Kórdrengir, 122 stig
8. Þór, 116 stig
9. Afturelding, 67 stig
10. Selfoss, 63 stig
11. Þróttur R, 55 stig
12. Víkingur Ó, 43 stig

4. Grindavík
Grindvíkingar eru á leið í sitt annað tímabil í röð í Lengjudeildinni eftir að hafa fallið úr efstu deild 2019. Það vantaði ekki mikið upp á að liðið væri með í baráttunni um að fara upp á lokasprettinum í fyrra. Þeir þurfa að breyta öllum jafnteflisleikjunum í sigurleiki en Grindavík gerði átta jafntefli í 19 leikjum í fyrra.

Þjálfarinn: Sigurbjörn Hreiðarsson stýrir Grindavík annað árið í röð. Sigurbjörn var aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar hjá Val þar áður en þeir skiluðu liðinu tveimur Íslandsmeistaratitlum og tveimur bikarmeistaratitlum. Hann þjálfaði einnig Hauka í Hafnarfirði.

Álit sérfræðings
Eiður Ben Eiríksson, Rafn Markús Vilbergsson og Úlfur Blandon eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina í ár. Eiður Ben gefur sitt álit á liði Grindavíkur.

„ Þjálfarateymið er á sínu öðru tímabili með liðið og þekkir betur inná styrkleika og veikleika liðsins. Liðið var gagnrýnt í fyrra fyrir að tapa niður forystu seint í leikjum og ef maður rýnir í frammistöður síðasta sumars er merkilegt að sjá hvernig gengi liðsins snérist þegar leið á mótið. Liðið var í fínum möguleika á að komast í efstu deild þegar mótið var flautað af og er líklega það lið sem var hvað svekktast með þá niðurstöðu ásamt auðvitað Fram. Það er eðilegt að lið sem fellur úr efstu deild, verst flesta leiki aftarlega á vellinum og er með lítið sjálfstraust sé ekki að fara spila blússandi sóknarbolta í fyrsta leik árið eftir. Liðið spilaði betri og betri fótbolta þegar leið á síðasta tímabil og var handbragð Bjössa og Óla komið á liðið þegar líða tók á mótið."

„Ég tel að liðið hafi fleiri vopn fram á við heldur en í fyrra, allir sem fylgjast með íslenskum fótbolta vita hvað Dion getur gefið liðum fram á við, hann mun nýtast þeim þegar liðin ætla að stíga hátt með varnarlínuna sína, einnig mun hann geta gefið þeim aukin kraft þegar liðið vill leggjast aftar á völlinn og beita skyndisóknum. Tiago er einnig frábær liðsstyrkur fyrir liðið, þessir tveir leikmenn munu breyta liðinu til hins betra sóknarlega en hvort að þessir leikmenn gefi liðinu eitthvað meira verður að koma í ljós."

Það hafa orðið breytingar á hópi Grindavíkur í vetur, góðir leikmenn hafa horfið á braut og í staðinn hefur liðið náð að styrkja sig með öðruvísi leikmönnum. Liðið hefur skipt um markmann, einnig eru breytingar á varnarlínunni, miðjunni og sókninni. Ég tel að liðið sé komið með betur spilandi leikmenn en misst þess í stað meiri karaktera úr hópnum. Það er stór spurning hvaða leikmenn ætla stíga upp og vera leiðtogar innan sem utan vallar. Það er augljóst að einn leikmaður mun ekki fara í þau fótspor sem Gunnar Þorsteinsson skilur eftir sig, en þess í stað gætu fleiri leikmenn tekið að sér leiðtogahlutverk í liðinu.

Hópurinn er algjört spurningamerki, til þess að liðið ætli sér að komast upp um deild verður allt að ganga upp. Hópurinn þarf að vera þéttur og sterkustu leikmenn liðsins þurfa að vera heilir í sumar svo að liðið nái að hala inn stig. Liðið mun vera háð því hvort gæðaleikmenn liðsins séu heilir eða ekki. Liðið spilaði á mörgum óþekktum nöfnum fyrir hinn almenna áhugamann í vetur og vonandi gefur það liðinu ákveðið boozt að eiga fleiri leikmenn sem geta komið inní liðið."

„Ég tel að þá sé alltaf veikleiki þegar lið eru að sækja sér leikmenn rétt fyrir mót, en Grindvíkingar þekkja það mjög vel. Liðið þarf að vera klárt þegar mótið hefst því að hvert stig mun skipta máli fyrir liðið í byrjun móts."

Lykilmenn: Aron Jóhannsson, Tiago Fernandes og Sigurður Bjartur Hallsson

Fylgist með: Ólafur Guðmundsson
„Enginn annar leikmaður sem kemur til greina hér. Persónulega er ég búinn að bíða eftir því að það komi eitthvað frá Ólafi í meistaraflokki. Leikmaður sem hefur verið mjög lofandi upp yngri flokka og yngri landslið Íslands. Ég er spenntur að sjá hvort hann stimpli sig inn sem einn af bestu leikmönnum deildarinnar þegar upp er staðið."

Komnir:
Anton Ingi Rúnarsson frá GG
Aron Dagur Birnuson frá KA
Dion Acoff frá Þrótti R.
Freyr Jónsson frá KA
Ólafur Guðmundsson frá Breiðablik
Tiago Fernandes frá Fram
Walid Abdelali frá Finnlandi
Þröstur Mikael Jónasson frá Dalvík/Reyni

Farnir:
Alexander Veigar Þorsteinsson í GG
Baldur Olsen í Ægi (Á láni)
Dusan Lukic í Ægi (Á láni)
Elías Tamburini í ÍA
Guðmundur Magnússon í Fram
Gunnar Þorsteinsson í nám
Gylfi Örn Öfjörð í GG
Hermann Ágúst Björnsson
Ivan Jugovic í GG
Mackenzie Heaney til Whitby Town í Englandi
Oddur Ingi Bjarnason í KR (Var á láni)
Óliver Berg Sigurðsson í Víði (Á láni)

Fyrstu leikir Grindavíkur
7. maí gegn ÍBV á heimavelli
13. maí gegn Þór á útivelli
21. maí gegn Fjölni á heimavelli
Athugasemdir
banner
banner