Newcastle
Það styttist óðum í að enska úrvalsdeildin byrji á nýjan leik. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 16. sæti er Newcastle.
Um liðið: Andinn í kringum Newcastle hefur alls ekki verið neitt frábær síðustu ár. Stuðningsmenn eru ósáttir við eigandann Mike Ashley og vilja margir hverjir einnig losna við knattspyrnustjórann Steve Bruce. Þrátt fyrir það, þá er liðið áfram í ensku úrvalsdeildinni, og þannig á það að vera; þetta er stórt félag sem á að vera í deild þeirra bestu.
Stjórinn: Við stjórnvölinn er hinn eini sanni Steve Bruce. Var hvað frægastur fyrir að leika í vörn Manchester United á sínum ferli sem leikmaður. Hann hefur ekki náð eins hátt á stjóraferlinum, og hann náði sem leikmaður. Frá því hann tók við Newcastle, hefur liðið unnið um 30 prósent leikja sinna og náð að halda sér nokkuð örugglega uppi. Markmiðið hlýtur samt að vera meira en það, eða kannski ekki á meðan Mike Ashley er eigandi félagsins.
Staða á síðasta tímabili: 12. sæti
Styrkleikar: Liðið er ágætlega mannað sóknarlega með Allan Saint-Maximin og Callum Wilson fremsta í flokki. Það eru tveir leikmenn sem mörg önnur lið í deildinni væru til í að vera með. Liðið er fínt í skyndisóknum og stuðningsmennirnir eru með þeim bestu á Englandi. Ef það gengur vel, þá er ástríðan svo sannarlega í fyrirrúmi og öll borgin flykkist á bak við liðið.
Veikleikar: Breiddin er ekki mikil og gæði varnarlega og inn á miðsvæðinu mættu alveg vera meiri. Er Joe Willock að koma eða ekki? Af hverju er ekki búið að ganga frá honum? Var algjörlega frábær á síðustu leiktíð á láni frá Arsenal. Það er lítið að frétta á leikmannamarkaðnum og þetta er allt saman mjög brotthætt hjá Newcastle. Liðið hefur ekki verið að spila skemmtilegan fótbolta síðustu ár og það virðist sem það sé ekki mikið plan í gangi upp á framtíðina að gera.
Talan: 0
Peningurinn sem er búið að eyða í leikmenn fyrir aðalliðið í sumar.
Lykilmaður: Callum Wilson
Hann og Allan Saint-Maximin eru lífsnauðsynlegir fyrir liðið. Ef þeir verða mikið frá vegna meiðsla, þá er erfitt að sjá Newcastle gera eitthvað annað en að enda í fallsæti. Wilson skoraði tólf mörk í fyrra í deildinni og hann er mjög mikilvægur.
Fylgist með: Joelinton
Hópurinn er eitthvað svo óspennandi fyrir utan Wilson og Saint-Maximin. Áhugavert að sjá hvort 40 milljón punda maðurinn Joelinton skori meira en fjögur mörk í deildinni í vetur. Skoraði tvö á sínu fyrsta tímabili fyrir félagið og fjögur mörk á síðustu leiktíð.
Komnir:
Þrír táningar sem spila líklega ekki neitt - alla vega ekki mikið - með aðalliðinu í vetur.
Farnir:
Andy Carroll - Án félags
Christian Atsu til Al-Raed - Frítt
Florian Lejeune til Alaves - Frítt
Fyrstu leikir:
15. ágúst, Newcastle - West Ham
21. ágúst, Aston Villa - Newcastle
28. ágúst, Newcastle - Southampton
Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Helga Katrín Jónsdóttir, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Victor Pálsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9.
10.
11.
12.
13.
14.
15.
16. Newcastle, 52 stig
17. Burnley, 40 stig
18. Brentford, 35 stig
19. Norwich, 28 stig
20. Watford, 21 stig
Athugasemdir