Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fös 02. ágúst 2024 13:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
FHL að skrifa söguna: Eitt það merkilegasta í íslenska boltanum í sumar
FHL hefur fagnað ótrúlegu gengi í sumar.
FHL hefur fagnað ótrúlegu gengi í sumar.
Mynd: FHL
Emma Hawkins hefur verið mögnuð í sumar.
Emma Hawkins hefur verið mögnuð í sumar.
Mynd: FHL
Úr leik hjá FHL og Grindavík í vetur.
Úr leik hjá FHL og Grindavík í vetur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL.
Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árangur FHL (Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir) er ein af sögum sumarsins í íslenska fótboltanum. Liðinu var fyrir tímabil spáð um miðja deild í Lengjudeild kvenna en er með tólf stiga forskot á toppi deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir.

FHL hefur unnið tíu leiki í röð og er með 34 stig úr 13 leikjum. Liðið getur tryggt sig upp í næstu umferð og ef það gerist þá á Austurland fulltrúa í efstu deild - karla eða kvenna - í fyrsta sinn í 30 ár. Það gerðist síðast þegar Höttur átti lið í efstu deild kvenna árið 1994.

Það hefur komið þeim sem fylgjast með deildinni á óvart hversu magnað gengi FHL hefur verið í sumar en það kemur þjálfara liðsins, Björgvin Karli Gunnarssyni, ekki mikið á óvart.

„Það er reynsla yngri leikmanna og bæting þeirra, og góð blanda af aðkeyptum leikmönnum sem hafa komið gríðarlega vel út," segir Björgvin Karl við Fótbolta.net er hann er spurður út í ástæðuna fyrir árangrinum. „Ég tók eftir þessu strax þegar þær (erlendu leikmennirnir) komu til okkar í æfingaferð á Spáni fyrir mót. Þá vissi maður að eitthvað sérstakt væri að fara að gerast."

Liðið endaði í áttunda sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð en þjálfarinn segir að það hafi verið tekinn mikill lærdómur úr því sumri. FHL hefur verið í góðri þróun síðustu árin og byggt upp sitt lið jafnt og þétt. Félagið hefur verið í Lengjudeildinni frá 2022 og lært mikið af því.

„Síðasta tímabil var gott lærdómstímabil. Við vorum að ströggla. En ég sagði við hópinn að við værum með eitthvað sérstakt í höndunum þegar við vorum út á Spáni. Það er í lok mars og byrjun apríl sem það er. Ég get sagt að ég hafi verið farinn að átta mig aðeins á þessu áður en mótið byrjaði."

Erlendu leikmennirnir magnaðir
Björgvin Karl hefur verið býsna góður í því að finna erlenda leikmenn á síðustu árum. Í ár má segja að hann hafi toppað sig þegar Emma Hawkins og Samantha Smith sömdu við félagið. Hawkins er langmarkahæst í deildinni með 21 mark í 13 leikjum og Smith hefur gert 14 mörk í 13 leikjum. Hún er næst markahæst.

„Þær gera mikið fyrir okkur sóknarlega en svo eru aðrir leikmenn sem að sjá um varnarleikinn. Um leið og þú fundum jafnvægið í því, þá hefur þetta verið virkilega gott. Við höfum spilað leiki þar sem við höfum verið mjög góðar í og verið hátt í 60 prósent með boltann og svo hafa verið aðrir leikir þar sem við höfum ekki spilað eins vel, en unnið þá kannski stærra," segir Björgvin Karl.

„Ég held að þeim líði mjög vel en ég geri ráð fyrir því að Emma fari til Portúgal þegar við tryggjum okkur upp. Það kemur í ljós síðar hvort hún komi svo aftur. Ef það gengur ekki upp hjá henni í Portúgal, þá er hún meira en velkomin aftur. Það verður tekið vel á móti henni, hún veit það."

En hvernig finnur maður svona góða erlenda leikmenn?

„Það er margt. Þú getur ekki bara horft bara á einhver 'highlights' myndbönd. Þú þarft að vinna ákveðna grunnvinnu. Þú þarft að skoða hvar leikmaður spilar og hvað hann spilar mikið, og svo framvegis. Ef þú ert með rétt tæki og tól eins og Wyscout og fleira, þá færðu gríðarlega miklar upplýsingar. Það er gott að sjá leikmennina líka með eigin augum. Ég hef farið mikið til Bandaríkjanna að skoða leikmenn," segir þjálfarinn.

„Ég fann Emmu og Samönthu eftir að hafa horft á myndbönd af þeim spila og í gegnum þeirra umboðsmann. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þær séu góðir karakterar, að velja karaktera sem hjálpa ungum hópi. Þær hafa komið með gríðarlega mikið að borðinu þar," bætir hann við.

Þetta er stórt
Árangurinn í sumar hefur verið magnaður og liðið hefur verið að gera frábærlega.

„Ég get ekki kvartað. Það eru komnir tíu sigurleikir í röð. Við höfum verið dugleg að safna stigum á meðan liðin í kringum okkur hafa verið að reyta af hvort öðru. Það er voða þægilegt að vera með fínt forskot, en deildin er ekki búin og við þurfum að klára þau stig sem við þurfum á að halda til að komast upp."

„Ég held að fólk sé ekki alveg að átta sig á því hvað þetta er stórt. Það hefur vantað betri umfjöllun um Lengjudeild kvenna. Það er gríðarlega góð umfjöllun um Lengjudeild karla en það myndi kannski ýta undir það að fólk fatti hvað þetta er stórt að lið á Austurlandi sé að komast í efstu deild ef umfjöllunin væri aðeins betri. Við höfum þó fundið fyrir því að gott gengi hefur lyft upp stemningunni fyrir liðinu. Þetta hefur verið virkilega gaman," segir Björgvin Karl en það er bara tímaspursmál hvenær FHL verður fyrsta liðið á Austurlandi til að spila í efstu deild í fótbolta síðan 1994. Afar merkilegt það.
Athugasemdir
banner
banner
banner