Landsliðsmaður Úsbekistan orðaður við Man City - Liverpool hafnar tilboðum í Doak - Cunha til Arsenal?
   mið 02. október 2019 13:00
Magnús Már Einarsson
Sá besti í Inkasso spilaði með skrúfur og plötur í fætinum
Bestur í Inkasso-deildinni 2019 - Rasmus Christiansen
Rasmus Christiansen.
Rasmus Christiansen.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Rasmus í leik með Fjölni.
Rasmus í leik með Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rasmus Christiansen, varnarmaður Fjölnis, var valinn besti leikmaður Inkasso-deildarinnar í vali þjálfara og fyrirliða en þetta var tilkynnt á hófi á Hótel Borg á föstudaginn. Rasmus var á láni hjá Fjölni frá Val í sumar og hann hjálpaði Grafarvogsliðinu að endurheimta sæti sitt í Pepsi Max-deildinni.

„Ég skal viðurkenna að ég var svolitið hissa á að vera valinn besti leikmaðurinn, bæði vegna þess að það er sjaldan varnarmaður sem fær svona verðlaun og síðan það að mér fannst ég hafa getað spilað betur í nokkrum leikjum í sumar, en það er kannski bara pressan sem ég set á sjálfan mig. Ég er samt mjög glaður og þakklátur fyrir þessi verðlaun, sérstaklega þegar það eru þjálfarar og leikmenn sem eru að kjósa," sagði Rasmus við Fótbolta.net.

„Heilt yfir gékk tímabilið mjög vel. Við náðum okkar markmiði og ég er búinn að fá að vera hluti af skemmtilegum og efnilegum hóp með fullt af góðum knattspyrnumönnum og þjálfurum. Fyrir tímabilið vissi ég ekki alveg hvað ég var að fara út í. Þetta gerðist allt svo fljótt, ég talaði við Óla (Ólaf Jóhannesson) um að fara á lán á sunnudegi, fór á fund með Ásmundi (Arnarssyni) og Gunnari (Má Guðmundssyni) á mánudegi og skrifaði undir á þriðjudegi. Fyrst var planið að vera á láni í 6 vikur eða til 1. júní en það var siðan fremlengt og ákveðið að ég yrði í Fjölni út tímabilið."

2-3 daga að jafna sig eftir leiki
Rasmus fótbrotnaði mjög illa í leik með Val gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í júní í fyrra. Hann sneri síðan aftur á fótboltavöllinn í vor

„Það hefur gengið ágætlega að koma til baka. Stærsta spurningin fyrir tímabilið var hvort ég gæti tekið þátt að fullu í öllum leikjum og æfingum og því var þetta ákveðin áhætta hjá Fjölni að fá mig inn í hópinn," sagði Rasmus.

„Þegar ég fór í aðgerð voru settar inn tvær plötur og 12 skrúfur til að styðja við beinið í gróandanum, það var vitað að þær gætu valdið mér óþægindum sem þær hafa gert. Ég finn fyrir þessu alla daga en bara mis mikið. Læknirinn gerði þá kröfu að plöturnar og skrúfurnar yrðu að vera í fætinum í að minnsta kosti ár. Nú er liðið rúmt ár og ég er að fara í litla aðgerð núna í október þar sem þetta verður fjarlægt."

„Ási hefur sýnt mér mikinn skilning og ég fékk að velja hvaða æfingar ég tók þátt í á fullu og hvenær ég hvíldi svo ég gæti verið eins vel tilbúinn í leiki og hægt var. Að mínu mati tókst það vel og ég náði að beita mér af krafti í leikjunum. Eftir leiki var ég oft 2-3 daga að jafna mig og var nánast á annarri löppinni, sem er leiðinlegt þegar maður vill æfa alla daga með liðinu og vera sem best undirbúinn fyrir leiki."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner