FH hefur fengið 22 ára miðvörð lánaðan úr röðum AIK í Svíþjóð. Sá heitir Ahmad Faqa og verður í Hafnarfirði til 31. júlí. Mikið hefur verið rætt um þörf FH fyrir því að fá miðvörð í hópinn fyrir tímabilið.
Ahmad, sem er sýrlenskur landsliðsmaður, spilaði 7 deildarleiki fyrir AIK í fyrra. Honum tókst ekki að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu og fær núna tækifæri hjá FH.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ahmad kemur til Íslands því hann átti gott tímabil með HK fyrir tveimur árum síðan. Hann var mikilvægur hlekkur í liði HK sem bjargaði sér frá falli úr Bestu deildinni 2023.
Ahmad gæti reynst mikilvægur hlekkur í liði FH en hann á ennþá rúmlega eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við AIK.
„Þegar þessi möguleiki bauðst þá vorum við sammála um að Faqa væri leikmaður sem hentaði okkur vel. Hann er fljótur, áræðinn og góður í návígjum. Hann mun styrkja hópinn og við hlökkum til sjá hann klæðast FH-treyjunni," sagði Davíð Þór Viðarsson við FH Media.
Athugasemdir