
"Ég er algerlega sáttur. Þetta er nákvæmlega það sem Vestri á að gera í hverjum einasta leik. Þetta getum við gert og við sýndum öllum hérna í dag að við erum svona gott lið," sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Vestra, eftir 1-0 sigur á Selfossi í kvöld
Lestu um leikinn: Selfoss 0 - 1 Vestri
Vestramenn voru manni færri seinasta hálftímann en héldu markinu hreinu og uppskáru 1-0 sigur. "Við höfum verið að fara mikið yfir varnarfærslur undanfarið. Við höfum í tvígang tapað 5-0 og í seinasta leik fengum við fjögur mörk á okkur. Við höfum farið vel yfir þetta og það sást í dag."
Næst var Gunnar spurður út í rauða spjaldið í leiknum "Mér fannst helvíti auðvelt fyrir okkur að fá gult spjald. Ég var mjög nálægt atvikinu þar sem minn leikmaður fékk seinna gula. Hann rennur á hann og það er aldrei neinn vilji til að meiða."
En er Vestri að blanda sér í toppbaráttuna? "Þessi deild er náttúrulega ótrúleg. Ef þú tengir saman sigra ertu í toppbaráttu en ef þú tapar tveimur leikjum ertu kominn í neðri hlutann. Það er skemmtilegt fyrir alla nema þjálfara og leikmenn. Auðvitað viljum við halda áfram að gera það sem við vorum að gera í þessum leik og ef það gerist verðum við í toppbaráttu."
Allt viðtalið má sjá hér að ofan.