
Tyrkneski fótboltalýsandinn Alper Bakircigil var rekinn í hálfleik þegar hann lýsti leik Kanada og Marokkó í síðustu viku. Ástæðan var sú að hann nefndi nafn Hakan Sukur í útsendingunni.
Hakim Zyiech kom Marokkó yfir eftir aðeins fjórar mínútur í umræddum leik og talaði þá lýsandinn um að Hakan Sukur ætti metið yfir fljótasta mark HM. Sukur skoraði fyrir Tyrkland eftir aðeins 11 sekúndur gegn Suður-Kóreu á HM 2002.
Hakim Zyiech kom Marokkó yfir eftir aðeins fjórar mínútur í umræddum leik og talaði þá lýsandinn um að Hakan Sukur ætti metið yfir fljótasta mark HM. Sukur skoraði fyrir Tyrkland eftir aðeins 11 sekúndur gegn Suður-Kóreu á HM 2002.
Þrátt fyrir að það sé allt saman satt og rétt þá fór það illa í yfirmenn Bakircigil á TRT sjónvarpsstöðinni að nafn Sukur hafi verið nefnt. Skyndilega var annar lýsandi mættur og lýsti seinni hálfleik.
Bakircigil skrifaði á Twitter að hann hefði verið rekinn frá TRT eftir að hafa starfað við fótboltaýsingar á stöðinni í mörg ár. Hann eyddi síðan færslunni.
Sukur er einn frægasti fótboltamaður Tyrklands í sögunni og skoraði 51 mark í 112 leikjum fyrir þjóð sína. En eftir ferilinn fór hann í pólitík og varð umdeildur.
Sukur var í sama flokki og Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands og lék allt í lyndi milli þeirra tveggja í fyrstu en það átti heldur betur eftir að breytast. Sukur átti í nánu sambandi við klerkinn Fethullah Gulen en fylgjendur hans framkvæmdu valdaránstilraun í Tyrklandi 2016.
Sukur, sem var ákærður fyrir að móðga Erdogan á samfélagsmiðlum, fór í útlegð til Bandaríkjanna þar sem hann hefur búið undanfarin sex ár og starfað sem bóksali og Uber bílstjóri. Hans bíður fangelsisvist til lífstíðar ef hann snýr aftur til heimalandsins, eða jafnvel líflátsdómur.
Athugasemdir