Valið hjá Man Utd er milli Solskjær og Carrick - Newcastle fær samkeppni frá Spurs um Strand Larsen - Lewandowski vill ekki fara
   þri 06. janúar 2026 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Nuno um Callum Wilson: Gætum þurft á honum að halda
Mynd: West Ham
Mynd: EPA
Nuno Espírito Santo þjálfari West Ham var spurður út í framtíð Callum Wilson á fréttamannafundi í gær.

Wilson er 33 ára gamall og hefur komið að 5 mörkum í 18 leikjum með West Ham á tímabilinu. Hann þykir ekki nægilega góður til að leiða sóknarlínu liðsins og þess vegna hafa Pablo og Taty Castellanos verið keyptir inn á upphafsdögum janúargluggans.

„Við Callum vorum að ræða þetta bara fyrir tíu mínútum. Það komu tveir nýir framherjar til félagsins og það var ég sem tók ákvörðun um að fá þá hingað. Þetta breytir stöðu hans í hópnum, það er augljóst," sagði Nuno á fréttamannafundi fyrir mikilvægan fallbaráttuslag gegn Nottingham Forest sem fer fram annað kvöld.

„Callum er mjög reyndur leikmaður, hann hefur verið atvinnumaður í fótbolta í mörg ár. Hann veit að staða sín hefur breyst og við erum mjög heiðarlegir við hvorn annan. Hann er samt ennþá leikmaður félagsins og við gætum þurft á honum að halda. Þegar við þurfum á honum að halda þá leggur hann allt í sölurnar útaf því að hann er fagmaður. Ég veit ekki hvað gerist í framtíðinni, það eru ákvarðanir sem tengjast mér ekki. Leikmaðurinn og félagið þurfa að taka ákvörðun í sameiningu.

„Mitt samband við Callum er opið, heiðarlegt og gott. Ég veit ekkert um hvernig viðræðum hans við félagið miðar eða hvað þær snúast um nákvæmlega."


Wilson gekk til liðs við West Ham á frjálsri sölu síðasta sumar og er aðeins með hálft ár eftir af samningi. Einhverjir fjölmiðlar á Englandi segja hann vera í viðræðum við West Ham um að enda samninginn fyrr.

Wilson lék fyrir Newcastle United, Bournemouth og Coventry áður en hann flutti til London. Hann tók þátt í 9 A-landsleikjum með Englandi á ferlinum.
Athugasemdir
banner