Bruno íhugar sína stöðu á Old Trafford - Kane ræðir við Bayern um framlengingu - Beto á blaði Juve
   þri 27. janúar 2026 17:44
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Stendur ekki í lögum FH að það sé bannað að fá inn eldri leikmenn"
Davíð Viðars er yfirmaður fótboltamála hjá FH.
Davíð Viðars er yfirmaður fótboltamála hjá FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gummi Tóta samdi við ÍA.
Gummi Tóta samdi við ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jói Bjarna í FH?
Jói Bjarna í FH?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH var á dögunum orðað við Guðmund Þórarinsson (1992) sem ákvað að semja við ÍA. FH hefur gefið út að félagið vinnur nú eftir þeirri stefnu að fjölga tækifærum hjá yngri leikmönnum og hefur kannski fengið þann stimpil að félagið muni ekki fá eldri leikmenn í sínar raðir.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH, í dag. Hann var spurður hvort FH ætlaði sér að fá inn miðjumann og hver stefnan væri varðandi að sækja eldri leikmenn.

„Við töluðum við Gumma Tóta, það er alveg rétt. Við erum með pláss í hópnum okkar fyrir réttu týpuna af leikmanni og hann þyrfti ekkert endilega að vera miðjumaður. Við mátum það bara þannig að okkur fannst rétt að kanna möguleikann á Gumma því okkur fannst hann passa inn í það sem við ætlum að gera. Hann er þannig týpa af leikmanni og hefði komið með reynslu og gæði inn í okkar hóp sem er frekar ungur."

„Við erum ekkert að leita logandi ljósi að miðjumanni. Við erum með miðjumenn sem spiluðu mjög vel í fyrra (Baldur Kára og Tómas Orra) og svo erum við með aðra mjög efnilega sem eru að koma upp og einhverja sem eiga inni. Ef að rétti leikmaðurinn dúkkar upp þá skoðum við það."

„Það stendur ekki í lögum félagsins að það sé bannað að fá inn eldri leikmenn,"
segir Davíð á léttu nótunum. „Það er eins og með öll góð lið, það þarf að vera jafnvægi á milli þess að vera með unga leikmenn og svo aðra reynslumeiri. Þó svo að við séum að setja stefnuna á að vera með mikið af mínútum fyrir yngri leikmenn, þá er það alveg á hreinu að eldri og reyndari menn eru mjög mikilvægir inn í þessa jöfnu. Bæði til að hjálpa yngri leikmönnum og svo geta þeir með gæðum sínum og reynslu dregið vagninn."

Munu skoða það alvarlega ef Jói kemur heim
FH hefur á síðustu dögum verið orðað við Jóhannes Kristinn Bjarnason (2005) sem gæti farið frá danska félaginu Kolding. Jóhannes Kristinn er frændi Jóhannesar Karls Guðjónssonar sem er þjálfari FH.

„Jói er ógeðslega flottur og efnilegur leikmaður og mér fannst hann frábær með KR áður en hann fór út. Ef það verður þannig að hann er að koma heim þá munum við að sjálfsögðu skoða það alvarlega hvort við eigum að reyna ná í hann. En ég held það sé ágætt að hlutirnir hjá honum úti komist fyrst á hreint," segir Davíð.

Jóhannes Kristinn var keyptur til Kolding síðasta sumar og hefur ekki verið í stóru hlutverki fyrsta hálfa árið úti. Hann hefur einnig verið orðaður við AB í Danmörku en samkvæmt heimildum Fótbolta.net er hann ekki á leið til Íslendingafélagsins í dönsku C-deildinni.
Athugasemdir
banner
banner