Tomas Soucek miðjumaður West Ham var sársvekktur eftir lokaflautið í naumu tapi á heimavelli gegn Nottingham Forest í fallbaráttuslag í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Hamrarnir tóku forystuna í fyrri hálfleik og settu boltann svo aftur í netið í upphafi síðari hálfleiks. Upphaflega var dæmt mark en það var tekið af eftir athugun í VAR-herberginu. Taty Castellanos var rangstæður í aðdragandanum.
Forest jafnaði skömmu síðar og gerði svo sigurmark úr vítaspyrnu undir lokin.
„Við vorum svo nálægt því að komast í 2-0 en svo ná þeir jöfnunarmarki. Þetta eru mjög erfið úrslit fyrir okkur útaf stöðunni á töflunni," sagði Soucek áður en hann snéri sér að vítaspyrnunni sem réði úrslitum.
Alphonse Areola markvörður reyndi við hornspyrnu en náði ekki til boltans. Hann kýldi þess í stað sóknarmann Forest og var vítaspyrna dæmd.
„Fyrir mér er þessi vítaspyrnudómur brandari. Það eru 20 vítaspyrnur á leik ef þetta er vítaspyrna. Ég kom í úrvalsdeildina útaf því að ég hélt að þetta væri harðasta deild í heimi með bardagamönnum og stríðsmönnum en þetta lítur meira út fyrir að vera eins og körfubolti þar sem er bannað að snerta andstæðinginn.
„Ég er búinn að sjá þetta aftur og ég skil ekkert í þessu. Ég var búinn að hreinsa boltann í burtu þegar þetta átti sér stað og enginn okkar skildi hvers vegna þurfti VAR til að dæma vítaspyrnu.
„Við erum í mjög slæmri stöðu og núna þurfum við að byrja að vinna. Þetta er sjö stiga munur. Við verðum að vinna nokkra leiki í röð. Ég hef trú á að við getum gert það þó að við séum í slæmri stöðu."
West Ham er í fallsæti með 14 stig eftir 21 umferð. Forest er í næsta sæti fyrir ofan með 21 stig.
Soucek segir að nú sé stund sannleikans að renna upp. Nú kemur í ljós hvaða leikmenn vilja berjast fyrir sæti í úrvalsdeildinni og hvaða leikmenn vilja bara slaka á.
„Þeir sem vilja bara slaka á eiga að detta úr hóp. Við verðum að horfa í spegilinn og vinna okkur upp úr þessari stöðu. Enginn okkar vill spila í næstefstu deild á næstu leiktíð. Við verðum að standa þétt við bakið á þjálfaranum okkar, hann hefur gert góða hluti í þessari deild. Við leikmenn verðum að standa saman og við þurfum að ná stuðningsmönnum á okkar band."
Sjáðu atvikið
Athugasemdir



