Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 06. ágúst 2020 10:52
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Mín skoðun 
Gaui Þórðar í sóttkví: Hún er eins og falinn eldur þessi skömm
Guðjón Þórðarson, þjálfari Víkings í Ólafsvík, segir að veiran sé brellin og bröndótt.
Guðjón Þórðarson, þjálfari Víkings í Ólafsvík, segir að veiran sé brellin og bröndótt.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Mynd: Haukur Gunnarsson
„Við erum í slæmri stöðu og megum ekki æfa sem hópur. Þetta er mjög þungt og mjög erfitt. Vonandi fáum við að spila fótbolta áfram og klára sumarið okkar," segir Guðjón Þórðarson, þjálfari Víkings í Ólafsvík.

Guðjón var í viðtali í þættinum Mín skoðun með Valtý Birni en hann er í sóttkví eins og leikmenn Ólafsvíkurliðsins.

Hópurinn er í sóttkví til 12. ágúst eftir að leikmaður liðsins greindist með veiruna. Hann virðist þó ekki hafa smitað neinn liðsfélaga sinn.

„Þetta er brellin veira og bröndótt, það er erfitt að eiga við hana. Hún er eins og falinn eldur þessi skömm," segir Guðjón sem segir það leiðinlegt að vera í þessari stöðu og líkir við stofufangelsi.

Misræmi frá stjórnvöldum
Í þættinum var rætt um þær æfingahömlur sem fótboltaliðum hafa verið settar en Íslandsmótið var stöðvað tímabundið og óvíst hvenær það hefst að nýju. Guðjón talar um að hömlurnar séu öfgakenndar og bendir á að í löndunum í kringum okkur sé verið að keppa.

„Það er æft og spilað á norðurlöndunum. Við sjáum misræmi frá stjórnvöldum, ég veit að allir vilja gera vel og standa sig. En það er hrópandi misræmi. Maður sér Leifsstöð troðfulla og maður hefur séð raðir fyrir utan skemmtistaði. Ég var á Akureyri og þar var röð fyrir utan Götubarinn og staðurinn troðfullur," segir Guðjón.

„Ef það er einhvers staðar holl starfssemi og vilji til að hafa hlutina í lagi þá er það hjá íþróttahreyfingunni."

Grafalvarlegt að storka forlögunum með þessum hætti
Ólafsvíkurliðið fór í sóttkví eftir að leikmaður sem æfði með liðinu greindist með veiruna eftir að hafa umgengist sýktan einstakling. Sú saga fór á kreik að sá einstaklingur hefði þá verið í sóttkví.

„Við fengum bara ekki rétta upplýsingar um hvernig staðan var tilkomin," segir Guðjón við Valtý Björn.

Valtýr spyr þá: Frá honum?

„Það voru bara ekki réttar upplýsingar. Þegar það kom í ljós brugðumst við strax við og unnum í samræmi við yfirvöld. Þar með er ég kominn í þessa sóttkví, leikmennirnir eru í sóttkví. Það er grafalvarlegt að storka forlögunum með þessum hætti. Þessi veira er dauðans alvara."

Valtýr: Er reiði í Ólafsvík?

„Ég skynja það ekki, ég hitti engan. Ég er bara að tala við sjálfan mig. En það eru vissulega vonbrigði, það er alveg á hreinu. Þegar ekki er farið rétt með þá getur það komið í bakið á mönnum og það gerði það í þessu tilfelli," segir Guðjón í Mín skoðun.

Ekki er langt síðan Guðjón tók við Ólafsvíkurliðinu en hann hefur aðeins stýrt liðinu í tveimur leikjum og á fimm æfingum. Liðið tapaði fyrir Leikni Reykjavík undir hans stjórn en vann svo Leikni Fáskrúðsfirði. Það situr í níunda sæti Lengjudeildarinnar, að loknum átta umferðum.


Athugasemdir
banner
banner
banner