Al-Hilal vill fá Salah fyrir næsta sumar - Man Utd ætlar að kaupa Branthwaite - PSG undirbýr tilboð í Duran
   mið 06. nóvember 2024 14:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Van Nistelrooy ekkert rætt við Amorim
Ruud van Nistelrooy.
Ruud van Nistelrooy.
Mynd: Getty Images
Ruud van Nistelrooy, bráðabirgðastjóri Manchester United, kveðst enn ekkert hafa heyrt frá Rúben Amorim.

Amorim er að taka við sem stjóri Man Utd en hann tekur formlega til starfa þann 11. nóvember næstkomandi.

Van Nistelrooy kom inn í þjálfarateymi Man Utd fyrir yfirstandandi tímabil og hefur lýst því yfir að hann vilji vera áfram í því en það hefur ekkert verið staðfest í þeim efnum.

Hollendingurinn var spurður út í það á fréttamannafundi í dag hvort hann hefði eitthvað rætt við Amorim um framtíðina.

„Nei, ég hef ekkert rætt við hann. Það hefur ekkert samtal verið á milli okkar. Ég er einbeittur á nútíðina," sagði Van Nistelrooy sem veit ekki hvort að hann fái að vera áfram hjá félaginu eða ekki.

„Ég er einbeittur að því að ná í úrslit í þeim leikjum sem ég á eftir, það er besta leið mín til að hjálpa stjóranum sem tekur við. Samtalið milli okkar hefur enn ekki átt sér stað. Það verður tími fyrir það seinna."

Manchester United mætir PAOK í Evrópudeildinni á morgun og tekur svo á móti Leicester um komandi helgi en eftir þann leik tekur Amorim við liðinu.
Athugasemdir
banner
banner