banner
   sun 07. febrúar 2021 18:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Alisson færði Man City sigurinn á silfurfati
Alisson, sem er vanalega mjög traustur í markinu, átti dapran dag.
Alisson, sem er vanalega mjög traustur í markinu, átti dapran dag.
Mynd: Getty Images
Íslandsvinurinn Phil Foden átti stórleik.
Íslandsvinurinn Phil Foden átti stórleik.
Mynd: Getty Images
Liverpool 1 - 4 Manchester City
0-0 Ilkay Gundogan ('37 , missed penalty)
0-1 Ilkay Gundogan ('49 )
1-1 Mohamed Salah ('63 , penalty goal)
1-2 Ilkay Gundogan ('73 )
1-3 Raheem Sterling ('76 )
1-4 Phil Foden ('83 )

Það er óhætt að segja það að Manchester City sé í góðum málum á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir sigur gegn Liverpool á Anfield í kvöld. Þetta var þriðji tapleikur Liverpool í röð á heimavelli, en liðið er ríkjandi Englandsmeistari.

Fyrri hálfleikurinn var í járnum. Liverpool sýndi fína takta en stóra augnablið í fyrri hálfleik fékk Man City. Vítaspyrna var dæmd þegar Fabinho braut á Raheem Sterling. Ilkay Gundogan, sem hefur verið frábær að undanförnu, fór á vítapunktinn. Vítaspyrna hans var hins vegar afar slök. Hann setti boltann yfir markið.

Gundogan bætti upp fyrir klúðrið í seinni hálfleiknum. Hann kom City í forystu á 49. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skoti sem Alisson hafði varið frá Phil Foden.

Liverpool svaraði markinu nokkuð vel. Curtis Jones átti skot rétt fram hjá markinu og stuttu eftir það var dæmd vítaspyrna þegar Mohamed Salah féll í teignum. Ruben Dias hélt aftur af honum og Salah lét sig falla. Salah fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Tíu mínútum eftir jöfnunarmarkið hrundi þessi leikur hins vegar eins og spilaborg hjá Liverpool. Markvörðurinn Alisson gaf boltann beint á Foden sem gerði vel og lagði boltann á Gundogan. Þýski miðjumaðurinn skoraði annað mark sitt.

Stuttu síðar gerði Alisson önnur stór mistök þegar hann gaf boltann á Bernardo Silva innan teigs. Silva setti boltann á Sterling sem skoraði á sínum gamla heimavelli. Alisson, sem hefur reynst Liverpool frábærlega síðustu ár, vill væntanlega gleyma þessum leik sem allra fyrst.

Phil Foden kórónaði svo frábæran leik sinn með stórkostlegu marki á 83. mínútu. Hann keyrði inn á teiginn og þrumaði boltanum á markið.

Lokatölur 4-1 fyrir Manchester City sem er óstöðvandi um þessar mundir. City hefur unnið 14 leiki í röð í öllum keppnum og er á toppnum með fimm stiga forskot á Manchester United sem er í öðru sæti. Man City á einnig leik til góða. Þetta tímabil hefur hins vegar reynst erfitt fyrir Liverpool og hafa meiðsli lykilmanna þar auðvitað haft sitt að segja. Liverpool er í fjórða sæti með 40 stig, tíu stigum frá Man City, og búið að spila leik meira en toppliðið.
Athugasemdir
banner
banner
banner