Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 07. maí 2022 18:53
Brynjar Ingi Erluson
England: Brighton pakkaði Man Utd saman
Pascal Gross skorar hér þriðja mark Brighton
Pascal Gross skorar hér þriðja mark Brighton
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Brighton 4 - 0 Manchester Utd
1-0 Moises Caicedo ('15 )
2-0 Marc Cucurella ('49 )
3-0 Pascal Gross ('57 )
4-0 Leandro Trossard ('60 )

Brighton átti magnaða frammistöðu er liðið vann Manchester United, 4-0, á AMEX-leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Moises Caicedo opnaði leikinn með frábæru marki á 12. mínútu er hann þrumaði boltanum neðst í nærhornið. Óverjandi fyrir David de Gea.

Danny Welbeck hefði getað bætt við öðru eftir slæm mistök Raphael Varane í vörninni en hann klúðraði ákjósanlegu færi og boltinn yfir markið.

United átti ekki eitt skot á markið í fyrri hálfleik og virtist ekkert ganga upp í leik liðsins en síðari hálfleikurinn átti eftir að reynast martröð fyrir liðið.

Marc Cucurella bætti við öðru marki Brighton strax á 49. mínútu eftir fyrirgjöf frá Leandro Trossard, sem var að eiga frábæran leik í dag.

Tólf mínútum síðar kom þriðja markið. Pascal Gross var þar að verki í þetta sinn. Aftur var það Trossard sem lagði upp en hann kom sér vinstra megin í teiginn, lagði boltann á Gross sem tók eina snertingu til vinstri áður en hann lagði boltann hægra megin við De Gea og í netið.

Trossard fullkomnaði svo leik sinn með því að skora fjórða mark Brighton á 60. mínútu. Danny Welbeck lyfti boltanum yfir De Gea en Diogo Dalot var mættur til að hreinsa frá, en boltinn náði ekki lengra en í bringuna á Trossard og í markið. Staðan 4-0 fyrir heimamönnum.

Edinson Cavani var nálægt því að minnka muninn nokkrum mínútum síðar en Robert Sanchez varði meistaralega frá honum með annarri hendi.

Alexis McAllister komst svo nálægt því að skora fimmta mark Brighton á 65. mínútu en Dalot komst fyrir skot hans, sem fór svo af stönginni og aftur fyrir endamörk.

Man Utd kom boltanum í netið um það bil tuttugu mínútum fyrir leikslok. Harry Maguire átti skalla á markið eftir hornspyrnu Bruno Fernandes. Sanchez varði, Maguire reyndi að koma boltanum aftur á markið áður en Cavani potaði honum inn, en úrúgvæski framherjinn var rangstæður og markið dæmt af.

Öruggur og jafnframt þægilegur sigur Brighton á Man Utd í dag og vonir United endanlega úti um að komast í Meistaradeildina. Brighton er í 9. sæti með 47 stig en Man Utd í 6. sæti með 58 stig þegar liðið á einn leik eftir.
Athugasemdir
banner