
„Ferðalagið gekk frekar 'smooth'. Við borðuðum í Puma í hádeginu í gær, beint upp á flugvöll, upp í vél og svo lentum við bara í Manchester," sagði Sif Atladóttir fyrir fyrstu æfingu íslenska kvennalandsliðsins í Crewe í dag. Íslenska liðið mun æfa á æfingasvæði Crewe Alexandra á meðan liðið tekur þátt í Evrópumótinu.
„Mér líst vel á svæðið, grasið er mjög grænt og lítur vel út. Við erum komnar í skrúfurnar og það verður bara gott að æfa á vellinum í dag."
Opnunarleikur EM fór fram í gærkvöldi á fullum Old Trafford. „Það var geðveikt að sjá það, maður fékk bara gæsahúð þegar maður heyrði og sá stemninguna. Þetta er draumi líkast."
EM átti upprunalega að fara fram síðasta sumar en var frestað vegna heimsfaraldursins. Þrátt fyrir að vera aldursforseti í hópnum er Sif á því að þetta aukaár sem Ísland fékk í undirbúning sé jákvætt.
„Já, ég held það. Maður horfir bara á þetta sem jákvætt, fleiri leikir í undirbúning og Steini hefur fengið góðan undirbúning með liðið. Hann hefur spilað á mörgum leikmönnum, það vita allir hvaða hlutverki þeir gegna, það geta allir stigið inn ef það kemur eitthvað upp á. Ég held að breiddin sé stórkostleg," sagði Sif.
Viðtalið við hana er talsvert lengra og má sjá það í heild sinni í spilaranum efst í fréttinni.
Sjá einnig:
Þessi breidd er ekkert grín - Hægt að stilla upp í tvö sterk lið
Athugasemdir