Á X-reikningi Dr. Football var um helgina greint frá því að Birnir Snær Ingason, leikmaður Víkings, væri með samningstilboð frá sænska félaginu Halmstad. Í kjölfarið var svo greint frá því að skiptin væru frágengin. Þrátt fyrir þær fullyrðingar þá hafa hvorki Halmstad né Víkingur gefið neitt út.
Birnir var hér á Fótbolti.net valinn besti leikmaður Bestu deildarinnar 2023 og var á dögunum valinn í íslenska landsliðið. Hann er 27 ára og gæti í næstu viku spilað sína fyrstu landsleiki á ferlinum.
Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason í dag en hann er yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi.
Birnir var hér á Fótbolti.net valinn besti leikmaður Bestu deildarinnar 2023 og var á dögunum valinn í íslenska landsliðið. Hann er 27 ára og gæti í næstu viku spilað sína fyrstu landsleiki á ferlinum.
Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason í dag en hann er yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi.
„Staðan er sú að það er komið samkomulag á milli félaganna. Þetta er núna á milli Birnis og Halmstad, ég veit ekki nákvæmlega hvar þetta er statt. Eins og þetta lítur út þá er hann á leiðinni út," sagði Kári.
Reynduð þið að sannfæra Birni um að vera áfram?
„Við höfum átt það samtal, en auðvitað er þetta undir stráknum komið. Maður skilur það alveg að hann vilji reyna fyrir sér í atvinnumennsku. Framundan er mjög spennandi tímabil hjá okkur, en hann vill láta reyna á að fara út."
Eru með nóg af leikmönnum til að fylla í skarðið
Þegar skiptin ganga í gegn eruð þið með manninn í staðinn fyrir Birni í hópnum? Er það Valdimar Þór Ingimundarson sem kom í desember?
„Valdimar er meiri framlínumaður heldur en kantmaður. En við erum með nóg af leikmönnum til þess að fylla skarð Birnis. Ari (Sigurpálsson) var eiginlega ekkert með okkur í fyrra, hann er kominn til baka. Við erum líka með Helga (Guðjónsson), Danijel (Dejan Djuric) og Ella (Erling Agnarsson). Þetta eru allt leikmenn sem geta spilað þessa stöðu og við erum í toppmálum þó að Birnir fari."
„Auðvitað var hann frábær í fyrra, það vita það allir, var valinn besti leikmaður mótsins. Auðvitað myndi maður vilja halda honum en þetta er bara staðan. Við höfum áður misst góða leikmenn."
Vissu að Birnir væri spenntur fyrir því að skoða möguleika erlendis
Í samningi Birnis er samkvæmt heimildum Fótbolta.net ákvæði sem gerir Birni auðvelt fyrir að ræða og semja við félag erlendis í þessum félagaskiptaglugga. Var það skýr krafa hjá honum þegar gerður var nýr samningur í sumar?
„Ég fer aldrei út í samninga leikmanna eða neitt slíkt. En við vissum að hann var spenntur fyrir því að prófa þetta ef eitthvað myndi koma upp og við vorum opnir fyrir því ef við myndum ná saman við eitthvað félag."
Best fyrir Ara að vera eitt ár í viðbót í Víkinni
Ari hefur verið orðaður við erlend félög og sagði Kári frá því í síðasta mánuði að félaginu hefði borist tilboð í leikmanninn. Norsku félögin HamKam og Haugesund hafa sýnt Ara áhuga sem og þýska félagið Arminia Bielefeld.
Er eitthvað að frétta af því?
„Það virðast allir vita hversu hátt þak Ari er með og það hafa alveg einhver félög sýnt áhuga en ekkert konkrít komið ennþá. Ég held það sé best fyrir Ara sjálfan að vera heima í eitt ár í viðbót og ná þá heilu tímabili. Hann var frábær '22, sýndi hvað hann gat, en í fyrra var hann mikið meiddur og óheppinn með það og spilaði því ekki mikið," sagði Kári.
Athugasemdir