Alonso mikill aðdáandi Zubimendi - Funda í þriðja sinn um Fernandes - Ten Hag að taka við Leverkusen?
   mið 08. mars 2023 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Breiðablik rætt við Fram, Fylki og Tindastól - „Þarf bara að klára þetta formlega"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ljóst er að framkvæmdir verða á Kópavogsvelli í apríl, skipta þarf um gervigras. Þær munu hefjast eftir opnunarleik Breiðabliks og HK í Bestu deildinni þann 10. apríl og á að vera lokið um mánuði síðar.

Á því tímabili eru Íslandsmeistarar Breiðabliks með skráða tvo heimaleiki; gegn Fram 28. apríl og Fylki 8. maí. Kvennaliðið á þá heimaleik gegn Tindastóli 2. maí.

Fótbolti.net heyrði í Eysteini Pétri Lárussyni, framkvæmdastjóra Breiðabliks, og spurði hann hvort félagið hefði heyrt í mótherjum sínum og óskað eftir skiptingu á heimaleikjum, þ.e. að Fram, Fylkir og Tindastóll myndu fá heimaleiki gegn Breiðabliki núna í upphafi móts og í staðinn yrðu leikir liðanna gegn Breiðabliki í seinni umferðinni leiknir á Kópavogsvelli.

„Við höfum heyrt í þessum félögum og menn jákvæðir á þetta. Það þarf bara að klára þetta formlega," sagði Eysteinn sem vonar að framkvæmdirnar, sem áætlað er að taki mánuð, verði lokið um miðjan maí.

„Ytri aðstæður, veður og fleira, geta haft eitthvað segja. Við liggjum á bæn og vonum að þetta gangi upp á þessum tíma." Ef Fram, Fylkir eða Tindastóll eru ekki tilbúin að skipta á heimaleikjum, er þá eina í stöðunni að spila á hlutlausum velli? „Það er fyrsti kostur að skipta á heimaleikjum og það eru allir búnir að taka jákvætt í það. Við vonum að það verði niðurstaðan og raunin," sagði Eysteinn.

Gervigrasið á Kópavogsvelli var lagt 2019 en það uppfyllir ekki kröfur UEFA fyrir komandi tímabil í Evrópukeppnum. Karlalið Breiðabliks tekur þátt í for-forkeppni Meistaradeildar Evrópu í júní ásamt meisturunum frá Svartfjallalandi, Andorra og San Marínó. Sigurvegarinn í því fjögurra liða móti fer í forkeppni Meistaradeildarinnar en hin þrjú liðin fara í aðra umferð í forkeppni Sambandsdeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner