Aron Elís Þrándarson, leikmaður Víkings, er með slitið aftara krossband í hné. Þetta staðfestir Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, í samtali við Fótbolta.net.
Aron sleit krossbandið í leiknum gegn ÍBV í gær. Hann gat ekki haldið leik áfram undir lok fyrri hálfleiks en gat gengið óstuddur af velli. Eftir myndatöku í dag kom í ljós að aftara krossbandið er slitið.
Aron sleit krossbandið í leiknum gegn ÍBV í gær. Hann gat ekki haldið leik áfram undir lok fyrri hálfleiks en gat gengið óstuddur af velli. Eftir myndatöku í dag kom í ljós að aftara krossbandið er slitið.
Núna á næstunni þarf að meta hvað skal gera varðandi meiðslin, það er möguleiki að Aron fari ekki í aðgerð og verði frá næstu 10-14 vikur vegna meiðslanna. En því fygir áhætta og lengir endurkomuferlið ef sú áhætta gengur ekki upp. Ef Aron þarf að fara í aðgerð þá verður hann frá fram á næsta ár. Sölvi segir að ákvörðun verði tekin á næstunni hvað verði gert.
Hann segir Víkinga alla vera mjög vonsvikna vegna tíðindanna enda hafi Aron litið mjög vel út á undanförnu og komið vel gíraður inn í tímabilið.
Aron Elís er þrítugur miðjumaður og hefur hann verið einn af bestu leikmönnum Bestu deildarinnar frá því að hann kom heim úr atvinnumennsku sumarið 2023.
Aðspurður um hvort Víkingur þurfi að fá annan miðjumann í hópinn segir Sölvi að samtalið hafi verið tekið í dag innanhúss. Hann segir að Víkingar séu ríkir af miðjumönnum og verði horft í það.
Athugasemdir