„Þetta var bara fín frammistaða hjá okkur og Dalvík mjög erfiðir, þannig að ég er bara virkilega sáttur með framlagið og hvernig við spiluðum þennan leik. Bara vel gert hjá okkur,'' sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs, eftir 2-0 sigur á Dalvík/Reyni í Lengjudeild karla í dag. Sigurinn þýðir að Þórsarar eru endanlega búnir að bjarga sér frá falli og leika því í Lengjudeildinni árið 2025.
Lestu um leikinn: Þór 2 - 0 Dalvík/Reynir
Örlög Dalvíkinga voru ráðin fyrir þennan leik. Var það eitthvað rætt í aðdragandanum?
„Já, bara ýmislegt sem að við ræðum. Við vissum að þeir myndu koma hérna dýrvitlausir og voru bara mjög fókuseraðir, með gott leikplan og gerðu þetta vel. Þannig að við þurftum að sýna mjög góða frammistöðu til að klára þetta og við vissum það alveg fyrir leikinn.''
Vítaspyrnudómur Erlends Eiríkssonar var að mati fréttaritara rangur. Hvernig sá Siggi þetta?
„Mér fannst hann bara berja hann í hnakkann og ég held að þetta hafi verið alveg kristaltært. Fannst skrítið að hann hafi ekki fengið rautt bara,'' sagði Siggi og augljóslega ekki á sama máli.
Gengi Þórs hefur ekki verið gott í sumar eftir gífurlega jákvæða umræðu í aðdraganda móts. Fáir sigrar unnist og spilamennskan oft á tíðum verið arfaslök. Sigurður segist spenntur að fá tækifæri til að gera betur á næstu leiktíð og bæta liðið.
„Bara spenntur að fá að byrja aftur og reyna að bæta liðið ennþá meira en við héldum að við hefðum gert síðasta vetur og gerðum að mínu viti. Sumarið náttúrulega ekki búið að spilast eins og við hefðum viljað, þannig að ég held að það séu allir þyrstir í að eyða vetrinum í að koma ennþá betur stemmdir og ennþá klárari í mótið og að einhverju leyti vinna upp fyrir þetta tímabil. Stigasöfnunin var alls ekki nægilega góð og ekki það sem að við ætluðum okkur.''
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.