Framtíð Ten Hag ákveðin í dag - Zubimendi til City - Liverpool horfir til Frankfurt - Sane aftur til Englands
banner
   þri 08. október 2024 11:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gunnar Magnús ekki áfram með Fylki (Staðfest) - Sakar stjórnina um óheiðarleika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Magnús Jónsson verður ekki áfram þjálfari kvennaliðs Fylkis en hann staðfesti tíðindin í samtali við Fótbolta.net í dag.

Gunnar var að klára sitt annað tímabil með liðið, kom því upp úr Lengjudeildinni í fyrra en tókst ekki að halda því uppi í Bestu deildinni í ár.

„Það var ákvörðun Fylkis að ég yrði ekki áfram, ákveðið að framlengja ekki við mig. Það var reyndar búið að gera munnlegt samkomulag um að halda áfram og ég búinn að tilkynna leikmannahópnum það, en svo breyttist eitthvað," segir Gunnar Magnús.

Hvað finnst þér um það?

„Mér finnst það bara óheiðarlegt náttúrulega, mikill óheiðarleiki og kom mér mjög á óvart svona í ljósi þess hvað þetta er búinn að vera frábær tími og frábær klúbbur. Ég hef ekkert nema gott um Fylki að segja, nema þetta tiltekna atvik."

„Eftir að það varð ljóst að við værum fallin þá var fundað og gert samkomulag um að ég yrði áfram og ég tilkynnti leikmannahópnum það. Síðan var ég bara boðaður á fund núna á miðvikudaginn í síðustu viku og er enn að bíða eftir fréttatilkynningu frá Fylki. Svona er þessi heimur, en þetta kom á óvart eftir að það var búið að gera munnlegt samkomulag um áframhaldandi samstarf."


Hvað vilt þú gera næst?

„Ég er bara opinn fyrir öllu, spenntur fyrir að halda áfram í þjálfun. Ef eitthvað spennandi býðst þá er maður að sjálfsögðu tilbúinn að skoða það. Tíminn verður að leiða það í ljós hvort að það sé eða verði eitthvað í boði," segir Gunnar Magnús við Fótbolta.net.

Gengst ekki við óheiðarleika
Fótbolti.net ræddi við formann knattspyrnudeildar Fylkis, Ragnar Pál Bjarnason, og bar orð Gunnars Magnúsar um samkomulag og óheiðarleika undir hann.

„Við funduðum með honum fyrir einhverjum þremur vikum síðan og niðurstaðan af því var sú að það væru allar líkur á því að við myndum framlengja við hann, það er alveg rétt, en síðan varð bara breyting á því, sem getur alltaf orðið," segir Ragnar.

„Nei, þetta var ekki formlegt samkomulag, en niðurstaða fundarins var þannig að það væru allar líkur á að hann yrði áfram. Við báðum hann hins vegar að halda því fyrir sig. Ég gengst nú ekki við einhverjum óheiðarleika, ég myndi ekki kalla þetta það, en auðvitað varð breyting á - það sem við töldum vera nokkuð góðar líkur á, það varð ekki. Niðurstaðan var þessi að framlengja ekki við hann. Við höfum alveg hist síðan og tökumst alveg í hendur og heilsumst í Bónus, þetta er bara boltinn," segir Ragnar.

Von er á frekari tíðindum varðandi þjálfaramál Fylkis fljótlega.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner