Afturelding mun á næsta tímabili spila í efstu deild karla í fyrsta sinn sinn í sögu félagsins. Liðið komst upp í gegnum umspilið í Lengjudeildinni.
Á kafla snemma á tímabilinu leit út fyrir að liðið myndi vera í neðri hlutanum og ekki komast í umspilið en það breyttist mikið með tilkomu markvarðarins Jökuls Andréssonar.
Á kafla snemma á tímabilinu leit út fyrir að liðið myndi vera í neðri hlutanum og ekki komast í umspilið en það breyttist mikið með tilkomu markvarðarins Jökuls Andréssonar.
Jökull kom heim um mitt sumar og samdi við Aftureldingu á láni. Hann hefði líklega getað farið í Bestu deildina og verið einn besti markvörðurinn þar en hann ákvað frekar að hjálpa uppeldisfélaginu að komast upp. Hann var stórkostlegur og var valinn í lið ársins.
Jökull var í viðtali í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net í gær og ræddi þá um skiptin í Aftureldingu. Hann var spurður að því hvort honum hefði liðið einhvern tímann eins og hann væri of góður til að taka þetta verkefni að sér.
„Maður hugsar aldrei þannig þegar maður byrjar að spila. Ég þekki þessa gæja svo vel. Arnór Gauti, Elmar... þetta eru allt Mosfellingar og maður mætir ekki þarna og hugsar svona. Við erum allir ótrúlega góðir félagar," sagði Jökull.
„Mig langaði að sýna þeim hvernig ég gæti hjálpað þeim. Ég vil þannig virðingu frekar en 'hey, ég er að koma heim og er miklu betri en þið'. Það er án efa asnalegasti hlutur í heiminum."
Jökull sagðist í þættinum óviss með framtíðina. Hann er samningsbundinn enska félaginu Reading fram til næsta sumars en það er ólíklegt að hann verði áfram þar eftir það. Afturelding hefur auðvitað mikinn áhuga á að halda honum fyrir næsta sumar.
„Ég er að fara aftur til Reading eftir viku og þar mun maður æfa á fullu. Ég er bara samningsbundinn og er að vinna fyrir Reading þegar fer aftur út," sagði Jökull.
„Auðvitað sér maður hvað gerist. Ég og Maggi (þjálfari Aftureldingar) erum búnir að spjalla, skiljanlega. Ég verð alltaf þakklátur Magga fyrir það sem hann hefur gert fyrir mig. Ég hef átt tvö erfið ár en ég kom hingað og fann sjálfan mig aftur. Ég fann þessa skepnu í búrinu. Ég er með bróður minn við hliðina á mér núna og hann hefur hjálpað mér líka frá degi eitt. Ég hef aldrei verið jafn glaður og eftir að ég kom hingað."
Athugasemdir