Ronaldo vill fá Casemiro til Sádi-Arabíu - Man Utd gæti gert lánstilboð í Kolo Muani - Dortmund hefur áhuga á Rashford
   þri 09. nóvember 2021 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðar Örn æfði ekki í dag - Spurt hvort Andri Lucas gæti byrjað
Icelandair
Viðar Örn
Viðar Örn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Lucas Guðjohnsen
Andri Lucas Guðjohnsen
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson sat fyrir svörum á Teams-fréttamannafundi í dag. Íslenska landsliðið er í Rúmeníu og undirbýr sig fyrir leik gegn heimamönnum á fimmtudag í undankeppni HM.

Arnar sagði að allir leikmenn hefðu tekið þátt í æfingu í dag nema Viðar Örn Kjartansson.

„Staðan á hópnum er fín. Við æfðum í dag og sá eini sem gat ekki verið með á æfingu í dag var Viðar Örn. Hann þurfti að fara út af undir lok leiks með Vålerenga á sunnudag og er ennþá aumur í fætinum. Við erum að „monitora" hann og sjáum hvernig staðan á honum er á morgun. Að öðru leyti voru allir með á æfingu en mismunandi staðan á þeim."

„Þeir tveir [Arnór Ingvi og Guðmundur Þórarinsson] sem komu frá Ameríku voru að spila á sunnudag, ferðalagið var langt og mikill tímamismunur. Við notum tímann akkúrat núna í að „recovera" og ég sagði við strákana að leikurinn er klukkan korter í tíu á okkar tíma hér. Við höfum ágætis tíma til að ná okkur en þurfum að fara varlega,"
sagði Arnar.

Út frá þessum upplýsingum um Viðar var Arnar spurður út í Andra Lucas Guðjohnsen. Er Andri kominn á þann stað að geta byrjað landsleik?

„Andri er á mjög góðri leið. Ég veit ekki hvort ég talaði um þetta í síðasta glugga en það eru einhverjir tólf-fimmtán mánuðir frá því hann sleit krossbandið. Rannsóknir hafa sýnt að það er mikið hættulegra fyrir unga leikmenn að byrja of snemma og fara of geyst eftir krossbandaslit. Við erum að taka unga leikmenn inn í hópinn og sjá til þess að þeir geti verið fastir A-landsliðsmenn næstu áratugi vonandi."

„Við þurfum að fara varlega og þetta hljómar kannski skringilega en það er ekki hægt að fara of geyst í þessu. Andri er að spila og æfa hjá sínu liði og það eru ferðalög í þessu. Að ætla nota yngstu leikmennina í öllum leikjum og byrja þá alla - það er of mikið. Auðvitað myndum við helst vilja að allir væru 100% alltaf og gætu tekið þátt í öllu en það er ákveðin „strategía" í þessu hjá okkur í teyminu að ákveða hverjir geti byrjað og hvað ákveðnir leikmenn geta spilað margar mínútur í verkefninu,"
sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner