Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 10. ágúst 2023 15:43
Innkastið
Hefur verið skotspónn Blikana - „Er að gera mjög skrítin mistök“
Anton Ari Einarsson fékk pistil frá þjálfara sínum.
Anton Ari Einarsson fékk pistil frá þjálfara sínum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Anton Ari hefur heldur betur verið skotspónn Blikana upp á síðkastið," segir Tómas Þór í Innkastinu þegar rætt er um markvörð Íslandsmeistara Breiðabliks, Anton Ara Einarsson.

Anton Ari hefur fengið mikla gagnrýni á tímabilinu og einhverjir stuðningsmenn Breiðabliks kallað eftir markvarðarskiptum.

„Anton er frábær markvörður, þrefaldur Íslandsmeistari og með tvo bikara og kallaður Evrópu-Toni," segir Tómas, en þetta tímabil hefur hann gert dýrkeypt mistök.

„Þetta byrjaði fyrir löngu. Hann var að gera mjög skrítin mistök í febrúar og mars. Ég veit að það vill enginn taka mark á undirbúningstímabili en það er kominn ágúst og hann er enn að gera svona mistök."

„Þetta hefur ekki verið hans ár en svo er spurningin hversu mikið hann eigi inn. Hann fer inn í mótið án alvöru varamarkvarðar og ég segi það því sama hvað hefur dunið á þá hefur Brynjar (Atli Bragason) aldrei fengið tækifæri og hann virkar sem meiri æfingamarkvörður en varamarkvörður."

Valur Gunnarsson, markvarðaþjálfari og fyrrum markvörður, var með í þættinum og velti því fyrir sér hvort það væri ókostur að Breiðablik sé ekki með reynslumeiri markvarðaþjálfara til að styðja Anton. Valdimar Valdimarsson er markvarðaþjálfari liðsins.

Anton átti mjög vondan leik í 3-4 tapi gegn KR á sunnudag en eftir leikinn vakti athygli að Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari fór upp að markverði sínum og hélt stuttan fyrirlestur alvarlegur á svip.

„Blikar eru ekkert að fara að skipta um markvörð í miðri Evrópubarátta. Mér finnst eins og umræðan sé að leita þangað. Ef þeir væru ekki í Evrópu held ég að þeir væru búnir að henda Brynjari aðeins í markið. Þeir verða að halda Tona áfram og á tánum. Hvert fer sjálfstraustið ef þú ferð að taka hann út úr liðinu?" segir Valur og Tómas bætir við:

„Mér hefur alltaf fundist með Anton Ara að hann sé sjálfstraustsmarkvörður. Vissulega eru þeir það flestir en þegar hann er með sjálfstraust þá fær hann ekkert stöðvað leik eftir leik. Svo koma tímar þar sem hann gerir mistök og hann á erfitt með að koma sér út úr því."

„Við þurfum samt að róa okkur á því að kenna því sem er í gangi hjá honum um allt sem miður hefur farið hjá Breiðabliki á tímabilinu. Það var enginn sem talaði um að Viktor Örn Margeirsson hafi litið út eins og 5. deildarspilari á Parken heldur var bara gert grín að Antoni Ara greyinu. Auðvitað á Anton samt að standa sig betur," segir Tómas.

Í þættinum er rætt um að leikmannastyrkingar Breiðabliks fyrir tímabilið hafi misheppnast og ýmislegt fleira.
Innkastið - Jólasveinar og spjót beinast að markvörðum
Athugasemdir
banner
banner
banner