Real Madrid setur sig í samband við Dalot - Gyökeres til United eða City - Salah til í eins árs samning - Rooney reynir að bjarga starfinu
   sun 10. nóvember 2024 18:27
Brynjar Ingi Erluson
England: Pedro Neto bjargaði stigi fyrir Chelsea með frábæru marki
Pedro Neto skoraði glæsilegt jöfnunarmark
Pedro Neto skoraði glæsilegt jöfnunarmark
Mynd: Getty Images
Martin Ödegaard byrjaði sinn fyrsta leik í rúma tvo mánuði og lagði upp mark
Martin Ödegaard byrjaði sinn fyrsta leik í rúma tvo mánuði og lagði upp mark
Mynd: Getty Images
Chelsea 1 - 1 Arsenal
0-1 Gabriel Martinelli ('60 )
1-1 Pedro Neto ('70 )

Chelsea og Arsenal skildu jöfn, 1-1, í 11. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Stamford Bridge í kvöld.

Martin Ödegaard kom aftur inn í lið Arsenal eftir að hafa glímt við meiðsli síðustu tvo mánuði og sást það strax að liðið hefur saknað hans.

Hann færði liðinu mikla ró og töluvert meiri gæði á miðsvæðinu

Heimamenn í Chelsea fengu frábært færi til að skora fyrsta mark leiksins er fyrirgjöf Pedro Neto skilaði sér á hausinn á Malo Gusto en hann skallaði framhjá fyrir opnu marki.

Arsenal svaraði því ágætlega, Gabriel Martinelli kom sér í gott færi áður en Kai Havertz setti boltann í netið aðeins nokkrum mínútum síðar.

Gestirnir tóku snögga aukaspyrnu í gegn á Havertz sem setti boltann undir Robert Sanchez, en markið var dæmt af þar sem Havertz var í rangstöðu þegar sendingin kom.

Það var Arsenal sem tók forystuna í leiknum eftir tæpan klukkutíma. Ödegaard lyfti boltanum snyrtilega yfir vörn Chelsea og á fjær þar sem Gabriel Martinelli var mættur. Hann skoraði síðan úr þröngu færi í nærhornið.

Forystan varði þó aðeins í átta mínútur. Enzo Fernandez lagði boltann á Pedro Neto sem fékk að dansa aðeins fyrir utan teiginn áður en hann þrumaði boltanum neðst í hægra hornið.

Á lokakaflanum róaðist leikurinn aðeins. Á lokasekúndunum gat Arsenal stolið sigrinum er Saliba fékk boltann vinstra megin í teignum, setti hann fyrir markið en Leandro Trossard setti boltann fram hjá. Havertz var í töluvert betra færi og hefði líklega skorað ef Trossard hefði ekki reynt við hann.

Þetta var það síðasta sem gerðist í leiknum og lokatölur því 1-1.

Chelsea er í 3. sæti með 19 stig eins og Arsenal sem er í 4. sætinu, níu stigum á eftir toppliði Liverpool.
Athugasemdir
banner
banner
banner