Man Utd vill bakvörð Barcelona - Newcastle reynir við kantmann Malaga - Man Utd og Chelsea hafa áhuga á Delap
   þri 11. febrúar 2025 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Úlfur tjáir sig um aðskilnaðinn við Fjölni
Lengjudeildin
'Ég hef fengið ótal mörg símtöl og skilaboð sem ég er þakklátur fyrir. Það er gott að vita að fólk metur það starf sem ég hef unnið, sérstaklega frá leikmönnum'
'Ég hef fengið ótal mörg símtöl og skilaboð sem ég er þakklátur fyrir. Það er gott að vita að fólk metur það starf sem ég hef unnið, sérstaklega frá leikmönnum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þrátt fyrir krefjandi fjárhagsaðstæður og ungt lið vorum við í baráttu um sæti í efstu deild síðustu tvö tímabil'
'Þrátt fyrir krefjandi fjárhagsaðstæður og ungt lið vorum við í baráttu um sæti í efstu deild síðustu tvö tímabil'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég óska Fjölni alls hins besta'
'Ég óska Fjölni alls hins besta'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úlfur Arnar Jökulsson var í gær látinn fara sem þjálfari Fjölnis eftir þrjú tímabil sem aðalþjálfari liðsins. Hann skrifaði undir nýjan samning síðasta haust og vakti athygli að hann væri látinn fara á þessum tímapunkti.

Fjölnir endaði í 4. sæti í Lengjudeildinni 2022, 3. sæti 2023 og aftur í 3. sæti á síðasta tímabili. Þjálfarinn ræddi við Fótbolta.net.

Kom þér á óvart þegar þetta ferli fer í gang?

„Já, þetta kom mér mjög á óvart. Ég hafði ekki fengið neinar vísbendingar um að þetta stefndi í þessa átt."

Varstu svekktur með að þetta spurðist út eða hvernig aðdragandinn var?

„Ég ætla ekki að fara of mikið út í það, en mér fannst ekki heppilegt hvernig þetta var framkvæmt. Það er aldrei skemmtilegt að sjá svona fréttir leka í fjölmiðla áður en maður sjálfur hefur fengið skýringar frá stjórninni."

„Ég hefði viljað að þetta hefði verið unnið á faglegri hátt, en svona er fótboltinn stundum."


Fannst þér þú ennþá vera með strákana með þér?

„Já, algjörlega. Ég upplifði fullt traust frá leikmönnum og við áttum mjög gott samband. Það hefur verið frábært að vinna með þeim og ég er stoltur af því hvernig þeir hafa vaxið sem leikmenn og einstaklingar."

Eitthvað sagt í kringum þetta sem þú tekur með þér stoltur eða sárnar að hafa heyrt?

„Ég hef fengið ótal mörg símtöl og skilaboð sem ég er þakklátur fyrir. Það er gott að vita að fólk metur það starf sem ég hef unnið, sérstaklega frá leikmönnum."

„Ég hef heyrt sögusagnir um samskipti mín, og það er auðvitað leiðinlegt ef fólk upplifir það þannig. Fótboltaumhverfið getur verið mjög krefjandi, og þegar unnið er undir pressu verða eðlilega skoðanaskipti um hvernig hlutirnir eigi að vera gerðir. Ég hef alltaf lagt áherslu á fagmennsku og skýr vinnubrögð og trúi því að ég hafi átt gott samstarf og samskipti við þá sem höfðu sama metnað og ég."


Hvernig sérð þú þessi þrjú ár?

„Ég er stoltur af því starfi sem ég skilaði. Ég tel okkur hafa spilað mjög skemmtilegan fótbolta sem leikmenn nutu sín í að spila.
Liðið spilaði á mörgum ungum uppöldum leikmönnum sem hafa tekið miklum framförum og hafa síðan verið seldir, sem hefur styrkt fjárhag félagsins. Þrátt fyrir krefjandi fjárhagsaðstæður og ungt lið vorum við í baráttu um sæti í efstu deild síðustu tvö tímabil."

„Mér hefði þótt gott að finna meiri stuðning í ákveðnum málum, en stjórnin tók þá ákvörðun að fara í aðra átt, og ég virði það. Ég óska Fjölni alls hins besta. Nú horfi ég fram á veginn og hlakka til næstu áskorana á mínum þjálfaraferli,"
segir Úlfur.
Athugasemdir
banner
banner
banner