Arsenal og Tottenham hafa áhuga á Kean - Man Utd sýndi Fermín López áhuga - Jota orðaður við Arsenal
banner
   mán 10. febrúar 2025 18:50
Elvar Geir Magnússon
Úlfur rekinn frá Fjölni (Staðfest)
Lengjudeildin
Úlfur Arnar Jökulsson.
Úlfur Arnar Jökulsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net hefur fengið það staðfest að Úlfur Arnar Jökulsson hefur verið rekinn sem þjálfari Fjölnis. Það vekur athygli að Fjölnir ráðist í þessar aðgerðir á þessum tímapunkti.

Heimildarmaður Fótbolta.net segir að ákveðin deyfð hafi verið yfir liðinu, stemningsleysi og óánægja með umgjörð. Stjórnin hafi talið sig knúna til að taka þessa ákvörðun.

Fjölnir tilkynnti í október að félagið hefði gert nýjan tveggja ára samning við Úlf.

Úlfur var á sínu þriðja tímabili með liðið í fyrra og endaði Fjölnir í 3. sæti Lengjudeildarinnar. Liðið var lengi vel í efsta sæti deildarinnar en endaði í umspili og féll úr leik gegn Aftureldingu sem fór að lokum upp.

Gunnar Már Guðmundsson, þjálfari Þróttar í Vogum, er efstur á óskalista Fjölnismanna og er búist við því að hann taki við liðinu. Gunnar Már er kallaður 'Herra Fjölnir' og lék lengi með liðinu ásamt því að starfa við þjálfun hjá félaginu eftir að skórnir fóru á hilluna.

Uppfært: Fjölnir hefur staðfest að félagið hafi rift ráðningarsamningi Úlfs og með þeirri tilkynningu fylgja þessi ummæli:

Björgvin Jón Bjarnason, Formaður knattspyrnudeildar Fjölnis: „Við viljum þakka Úlla áralangt samstarf. Undir hans stjórn hefur fjöldi ungra pilta úr Grafarvogi fengið tækifæri með meistaraflokki félagsins. Þá hefur árangur liðsins verði með ágætum. Honum fylgja bestu óskir um gæfu í því sem hann tekur sér fyrir hendur.”

Úlfur Arnar Jökulsson: „Ég vil þakka öllum leikmönnum, þjálfarateymi og öðrum sem hafa verið hluti af þessu verkefni fyrir frábært samstarf. Mér hefur þótt heiður að vinna með þessum hópi, og ég er stoltur af þeirri vegferð sem við höfum verið á saman, sérstaklega með ungu leikmennina sem hafa vaxið og þróast innan félagsins. Ég óska Fjölni alls hins besta í framtíðinni og hlakka til næstu áskorana á mínum þjálfaraferli."
Athugasemdir
banner
banner
banner