Grótta hefur fengið öflugan liðsstyrk fyrir tímabilið en Húsvíkingurinn Hulda Ösp Ágústsdóttir er gengin í raðir félagsins frá Víkingi R.
Hulda Ösp er uppalin á Húsavík og spilaði með meistaraflokki Völsungs alveg til ársins 2020.
Hún lék 55 leiki og skoraði 19 mörk í deild- og bikar með Völsungi áður en hún samdi við Víking.
Þar spilaði hún mikilvæga rullu í liðinu og átti meðal annars stóran þátt í því er Víkingur vann Lengjudeildina og Mjólkurbikarinn fyrir tveimur árum.
Á síðasta tímabili byrjaði hún aðeins þrjá af þeim sautján deildarleikjum sem hún spilaði og skoraði tvö mörk, en hún er nú farin til Gróttu og vonast væntanlega eftir að spila stærra hlutverk í toppbaráttuliði.
Grótta rétt missti af sæti í Bestu deildina á síðasta ári en liðið hafnaði í 3. sæti með 34 stig eins og Framkonur sem fóru upp á betri markatölu.
Athugasemdir