Tottenham vill Eze - Belgi orðaður við Arsenal - Man Utd í viðræðum um Rabiot
   þri 11. júní 2024 14:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Formaður KR: Óskar er maður sem við þurftum í starfið
'Ég fer ekkert leynt með það að ég er mjög hrifinn af honum sem þjálfara'
'Ég fer ekkert leynt með það að ég er mjög hrifinn af honum sem þjálfara'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við höfum lengi viljað fá hann í starf fyrir félagið'
'Við höfum lengi viljað fá hann í starf fyrir félagið'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við erum með meistaraflokksþjálfara og erum á ákveðinni vegferð.'
'Við erum með meistaraflokksþjálfara og erum á ákveðinni vegferð.'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson var í gær tilkynntur sem nýr starfsmaður knattspyrnudeildar KR og mun starfa þar sem faglegur ráðgjafi.

Fótbolti.net ræddi við Pál Kristjánsson, formann knattspyrnudeildar KR, í dag og var hann spurður út í ráðninguna.

Hvenær og hvernig kemur þessi hugmynd upp?

„Hann svaraði því í rauninni sjálfur. Við höfum alltaf verið í góðu talsambandi við Óskar enda góður og gegn KR-ingur. Við höfum lengi viljað fá hann í starf fyrir félagið, en það hefur bara aldrei staðið þannig að það hefur gengið upp. Hann er með flotta sýn og hugmyndir um KR. Við viljum virkja hann og nýta hann."

Hvað viljið þið að hann geri í þessu starfi?

„Eins og fram kemur í tilkynningunni þá er það svolítið að þróa og taka til í starfinu, hjálpa okkur að taka þetta lengra."

Hefur ekki áhuga á því að þjálfa meistaraflokk
Eftir tíðindi gærdagsins þá hugsa einhverjir að Óskar sé nú mættur í KR og því einungis tímaspursmál hvenær hann tekur við sem þjálfari meistaraflokks karla. Hvernig sérð þú þetta?

„Hann sagði sjálfur í viðtali í gær að hann hefði ekki áhuga á því að þjálfa meistaraflokk. Við erum með meistaraflokksþjálfara og erum á ákveðinni vegferð. Vissulega hefur ekki gengið sem skildi það sem af er sumri en menn verða að geta horft lengra en einn mánuð fram í tímann. Það voru allir sáttir fyrir rúmum mánuði síðan en svo hefur gengið illa. Við þurfum að geta horft á hlutina í stærra samhengi."

Maður sem við þurftum í starfið
Hversu stórt er fyrir KR að fá Óskar til starfa?

„Það hefur alltaf verið vilji til að fá Óskar til félagsins, Óskar starfaði fyrir KR á árum áður og skilaði góðu starfi. Ég fer ekkert leynt með það að ég er mjög hrifinn af honum sem þjálfara. Hann þjálfaði mig sjálfan fyrir nokkrum árum síðan, ég held að hann hafi reyndar þróað sinn leik svolítið frá því að hann þjálfaði mig fyrir rúmum 20 árum. Það er frábært að fá Óskar, kraftur í honum, vinnusamur, duglegur, með sterkar skoðanir, fylgin sér og maður sem við þurfum í starfið."

Óskar þarf sjálfur að ræða við þjálfara félagsins
Páll ræddi við Gregg og aðra starfsmenn félagsins áður en Óskar var ráðinn. Fékkstu einhver viðbrögð frá Gregg?

„Ekkert sem kom á óvart. Eins og Óskar sagði sjálfur þá þarf hann sjálfur að ræða við þjálfara félagsins, hvort sem þeir eru í yngri flokkum eða í meistaraflokki."

Tekið var fram að Óskar væri til að byrja með í hlutastarfi, kemur til greina að þetta verði fullt starf í framtíðinni?

„Já, við skoðum það. Fótboltinn er eins og fótboltinn er, maður veit aldrei hvað gerist," sagði Palli að lokum.
Athugasemdir
banner
banner