Bayern og Real vilja Dalot - Liverpool að vinna í Kerkez - Newcastle ætlar að reyna við Delap
   mið 12. mars 2025 15:09
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Arnar valdi fáa varnarmenn og talar um sveigjanleika - „Það er leiðin fram á við"
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi Tómasson er eini náttúrulegi vinstri bakvörðurinn í hópnum.
Logi Tómasson er eini náttúrulegi vinstri bakvörðurinn í hópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar er einn af sex varnarmönnum í hópnum.
Aron Einar er einn af sex varnarmönnum í hópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er Sverrir Ingi líka.
Það er Sverrir Ingi líka.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það eru einungis sex eiginlegir varnarmenn í landsliðshópnum sem Arnar Gunnlaugsson, nýr þjálfari landsliðsins, tilkynnti í dag. Það eru þeir Valgeir Lunddal Friðriksson, Bjarki Steinn Bjarkason, Guðlaugur Victor Pálsson, Logi Tómasson, Aron Einar Gunnarsson og Sverrir Ingi Ingason.

Arnar var spurður út í valið á landsliðshópnum og varnarleikinn almennt á fréttamannafundi eftir að hópurinn var opinberaður.

„Ég held að 70-75% minni vinnu fer akkúrat í það að skoða varnarleikinn og reyna að bæta hann. Við fengum bæði á okkur mikið af mörkum, og það sem er kannski enn skelfilegra: mikið af færum. Við fengum á okkur mikið af færum þrátt fyrir að spila fótbolta sem snerist ekki um að halda boltanum. Við vorum í vörn töluverðan hluta af leiknum en vorum samt að fá mikið af færum á okkur. Það þýðir að við vorum ekki að fá nein verðlaun fyrir þann fótbolta sem við vorum að spila," sagði Arnar.

„Ég hef ekkert á móti því að spila lágvörn, miðvörn eða pressu, en á endanum þarftu að fá einhver verðlaun fyrir það. Ef við spilum lágvörn viljum við gera það til að fá fá færi á okkur, ef við spilum pressu viljum við fá möguleika á 'transition' og skyndisóknamörkum, og ef við viljum halda í boltann þá vil ég fá fleiri tækifæri en andstæðingurinn."

„Sókn vinnur leiki en vörn vinnur titla. Þetta er gömul saga en sannindi. Við munum aldrei ná árangri ef við náum ekki tökum á okkar varnarleik."


Vildi ekki velja tvo menn í allar stöður
„Minn fyrsti hópur, mjög spennandi og mikil áskorun að vera loksins hinu megin við tjaldið, verið einn af ykkur hinum, verið að gagnrýna og kvarta og kveina yfir af hverju Jón er ekki valinn í staðinn fyrir Sigga. Núna er það allt í einu ég sem er að velja þennan hóp og ég get sagt ykkur það að það er gríðarlega erfitt. Við eigum allt í einu mikinn fjölda af gríðarlega öflugum leikmönnum. Við erum örugglega komnir með svona 40-50 manna sterkan kjarna og það er erfitt að skilja menn eftir heima. En það er bara hægt að velja 23 í þetta skiptið og það eru nokkuð margir sem þurfa að bíta í það súra epli að vera heima í þetta skiptið."

Hver var mesti hausverkurinn við þetta val?

„Það var að vera svolítið miskunnarlaus, vera trúr minni sannfæringu um hvernig ég var búinn að sjá hlutina fyrir mér frá því að ég fékk þetta starf. Sem dæmi eru ekki beint margir náttúrulegir varnarmenn í hópnum. Ég var í raun og veru að senda þau skilaboð að ég vildi meiri sveigjanleika í leikmönnum, leikmenn sem gætu spilað nokkrar stöður og verið sveigjanlegir. Ég vildi ekki fara í það sem margir hafa gert áður í þessu starfi, að velja t.d. tvo hægri bakverði, tvo vinstri bakverði og tvo hægri hafsenta, heldur reyna finna lausnina innan þess hóps sem ég hef valið. Það er áskorun, en að sama skapi mjög skemmtilegt að reyna búa til þannig pælingu. Ég vona að þegar menn horfa á minn fyrsta hóp þá sjái þeir í hausnum á sér hvernig fótbolta við munum reyna að spila," sagði Arnar.

Þjálfarinn var spurður út í sveigjanleikann, að einhverjir munu fá hlutverk sem þeir séu ekki vanir í komandi verkfni.

„Leikmennirnir þurfa að vera tilbúnir til þess, ég ætlast til mikils af leikmönnum. Þeir þurfa að vera taktískt sterkir. Við sjáum hvernig nútímafótbolti er að þróast, það er ekki einhver ein föst staða fyrir menn lengur, menn þurfa að geta leyst margar stöður. Sem dæmi úr Liverpool - PSG í gær, þar voru miðjumenn að spila hafsentinn og leikmenn sem hafa aldrei spilað bakvörð áður og þess háttar. Það er leiðin fram á við. Pælingin mín er að hafa leikmenn sem eru taktískt sterkir og sveigjanlegir. Ég held að það muni nýtast okkur vel. Svo getur vel verið að ég fái þetta beint í andlitið með meiðslum frá tveimur hægri bakvörðum strax í fyrsta leik. En við eigum allavega að vera með hóp af hæfileikaríkum leikmönnum sem geta leyst ýmsar stöður."
Fréttamannafundur Arnars í heild
Arnar Gunnlaugs eftir sinn fyrsta hóp - Klárlega merki um nýja tíma
Athugasemdir
banner
banner
banner