Arsenal á góða möguleika á að fá Rodrygo - Atletico leggur allt kapp á að fá Romero - West Ham hafnaði tilboði í Kudus
   mán 12. apríl 2021 13:25
Elvar Geir Magnússon
Litið á norskt Íslendingalið sem trúðafélag
Norska félagið Strömsgodset tilkynnti í dag að þeir Hakon Wibe-Lund og Björn Petter Ingebretsen væru orðnir nýir þjálfarar liðsins til bráðabirgða en mikið hefur gustað um það að undanförnu.

Danski þjálfarinn Henrik Pedersen hætti hjá félaginu á dögunum eftir að hann var ásakaður um kynþáttafordóma. Leikmaður liðsins sagði að Pedersen hafi kallað sig 'apa' og 'negra'.

Sagt er að leikmenn séu ekki sáttir við hvernig félagið höndlaði aðstæður í kringum þetta mál, það sé sundrung innan félagsins og úr því þurfi að leysa.

Tveir Árbæingar leika með liðinu; Valdimar Þór Ingimundarson og Ari Leifsson.

„Ég tel að utan frá sé litið á Strömsgodset sem trúðafélag. Það er eitthvað sem við þurfum að bregðast við núna. Við þurfum að sameina leikmennina," segir Ingebretsen en hann þjálfaði liðið 2015-2016 og 2018-2019.

„Allir gera sér grein fyrir því að þetta eru virkilega krefjandi aðstæður. Þetta hefur verið einn erfiðasti tíminn í sögu Strömsgodset," segir Dag Lindseth Andersen, framkvæmdastjóri félagsins.

Strömsgodset hafnaði í þrettánda sæti norsku úrvalsdeildarinnar í fyrra en nýtt tímabil hefst í næsta mánuði. Ingebretsen segir að nýja þjálfarateymið muni funda í einrúmi með öllum leikmönnum.
Athugasemdir
banner
banner