fös 13. janúar 2023 10:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sara Björk leggur landsliðsskóna á hilluna (Staðfest)
Icelandair
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk Gunnarsdóttir, sem hefur verið landsliðsfyrirliði í fjölda ára, hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna.

„Eftir 16 ár með landsliðinu þá hef ég ákveðið að hætta. Þetta er búið að vera frábær tími og mikill heiður en ég veit að þetta er rétti tímapunkturinn til að kveðja," skrifar Sara á samfélagsmiðla.

„Þetta hefur verið stórkostleg vegferð og ég hef verið stolt af því að klæðast bláu treyjunni frá degi eitt."

Hún segist vera stolt af því að hafa verið hluti af liðinu sem fór á fyrsta stórmótið árið 2009. Hún hefur tekið þátt á öllum þeim stórmótum sem kvennalandslið Íslands hefur farið á.

„Ég vil þakka KSÍ, öllum þjálfurunum, öllu starfsfólkinu, leikmönnunum og sjálfboðaliðunum sem tóku þátt í þessu ferðalagi með mér. Ég óska sambandinu og liðinu alls hins besta."

„Áfram Ísland."

Sara, sem er 32 ára gömul, hefur átt magnaðan landsliðsferil og er hún leikjahæsta landsliðskonan í sögunni með 145 A-landsleiki. Hún lék sinn fyrsta A-landsleik þegar hún var 16 ára gömul gegn Slóveníu. Hún var lengi vel fyrirliði, en hennar síðasti landsleikur var tapið sorglega gegn Portúgal í október síðastliðnum.

Sara er á mála hjá Juventus á Ítalíu og mun hún halda áfram að spila þar.


Athugasemdir
banner
banner
banner