Freyr Alexandersson var kynntur sem nýr aðalþjálfari norska stórliðsins Brann í dag og svaraði spurningum.
Freyr er annar Íslendingurinn sem þjálfar Brann eftir að Teitur Þórðarson stýrði liðinu fyrir meira en tveimur áratugum síðan. Stjórnendur Brann eru gríðarlega ánægðir með að hafa tekist að ráða Frey sem var efstur á óskalistanum þeirra.
„Ein af stærstu ástæðunum fyrir því að ég valdi Brann er útaf menningunni sem hefur skapast í kringum fótboltann hérna í Bergen. Stuðningsfólkið sem fylgir Brann er eitthvað sem öðrum félögum í Skandinavíu dreymir um," sagði Freyr þegar hann var kynntur til leiks, en hann hafði úr nokkrum tilboðum að velja og kaus að velja Brann.
„Það eru þónokkrir Íslendingar sem hafa verið hjá Brann í gegnum tíðina og allir tala þeir gríðarlega vel um klúbbinn og borgina. Stærsti gallinn virðist vera rigningin en ég get lifað með henni."
Danski þjálfarinn Jonathan Hartmann kemur til Brann með Frey en þeir hafa starfað saman hjá Lyngby og Kortrijk undanfarin misseri.
„Ég er virkilega ánægður með að Jonathan sé kominn hingað með mér. Hann er ótrúlega tryggur og það er gríðarlega mikill stuðningur í honum. Hann sér um mig og grípur mig þegar mér skrikar fótur."
Til gamans má geta að kærasta Jonathan Hartmann er frá Bergen.
Athugasemdir