Landsliðsmaður Úsbekistan orðaður við Man City - Liverpool hafnar tilboðum í Doak - Cunha til Arsenal?
   fim 13. september 2018 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í 2. deild: Tók mig slétt 20 ár að skila mér aftur heim
Baldur Ingimar Aðalsteinsson (Völsungur)
Baldur Ingimar sneri aftur í uppeldisfélagið, Völsung í sumar.
Baldur Ingimar sneri aftur í uppeldisfélagið, Völsung í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Völsungur er í baráttu um að fara upp í Inkasso-deildina. Baráttan er mjög hörð og hefur verið það í allt sumar.
Völsungur er í baráttu um að fara upp í Inkasso-deildina. Baráttan er mjög hörð og hefur verið það í allt sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik Völsungs og Kára.
Úr leik Völsungs og Kára.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Baldur lék með Val frá 2004 til 2010 og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu.
Baldur lék með Val frá 2004 til 2010 og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldur í landsleik. Hann á átta A-landsleiki að baki fyrir Ísland.
Baldur í landsleik. Hann á átta A-landsleiki að baki fyrir Ísland.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Baldur Ingimar Aðalsteinsson ákvað í júlíglugganum að ganga í raðir uppeldisfélags síns, Völsungs.

Baldur er 38 ára en hann hafði lítið spilað fótbolta frá 2011 þegar hann ákvað að taka fram skóna og spila með Völsungi í sumar. Baldur á nokkra leiki í 4. deildinni með KFG 2014, 2015 og 2016 en leikirnir eru ekki margir. Það kom því á óvart þegar þessi fyrrum leikmaður ÍA, Vals og Víkings ákvað að taka skóna fram og spila fyrir Völsung í 2. deildinni. Tuttugu ár voru liðin frá síðasta leik Baldurs með Völsungi áður en hann ákvað að spila með liðinu í sumar.

Baldur átti frábæran leik í miðverði hjá Húsavíkurliðinu þegar það lagði Kára að velli í 2. deildinni síðastliðinn sunnudag. Baldur sem var vanur að spila framar á vellinum fyrr á ferlinum steig vart feilspor í hjarta varnarinnar og er leikmaður 20. umferðarinnar í 2. deild hér á Fótbolta.net.

„Ég hef ávallt stefnt að því að snúa aftur heim í Völsung. Mér fannst ég skulda félaginu það og ég vildi reyna að láta eitthvað gott af mér leiða. Ég var hins vegar harður á því að gera þetta ekki nema ég væri í standi til að gera þetta almennilega," sagði Baldur við Fótbolta.net.

„Í ár hef ég í fyrsta sinn frá því að ég hætti árið 2011 stundað líkamsrækt af einhverju viti. Ég datt inn í flottan æfingahóp í Hress Heilsurækt í Hafnarfirði og undir styrkri stjórn Sigursteins Arndal komst ég loksins aftur í form. Ég heyrði í Jóa, þjálfara Völsungs, í vor þegar ég var staddur á Húsavík í sauðburði og mætti á æfingu. Æfingin gekk vel og strákarnir tóku mér opnum örmum enda frábær hópur. Í kjölfarið var mikill áhugi hjá öllum að gera þetta loksins."

„Ég guggnaði á þessu í upphafi sumars en þegar Jói heyrði í mér í glugganum þá kom ekkert annað til greina en að keyra á þetta. Það tók mig slétt 20 ár að skila mér aftur heim."

Á vefsíðu KSÍ er sagt að Baldur sé búinn að spila fjóra deildarleiki með Völsungi í sumar en hann er ekki alveg sammála því. Hann er ánægður með frammistöðu sína og liðsins einnig.

„Leikirnir eru nú reyndar fimm. Ég keyrði vestur þegar við mættum sterku liði Vestra. Ég ætla að hringja í KSÍ og fá þetta leiðrétt. Þetta er nefnilega minn fyrsti og sennilega eini leikur á ævinni á slóðum vestfirska markaprinsins, Hálfdáns vinar míns Gíslasonar og því mikilvægt að hann verði rétt skráður," sagði Baldur léttur.

„Við unnum alla hina fjóra leikina sem ég hef spilað og frammistaða liðsins til fyrirmyndar. Ég er sáttur með mitt framlag í sumar."

Leikurinn gegn Kára var líklega kveðjuleikur Baldurs á þessu tímabili. Hann er að fara að gifta sig og fer í brúðkaupsferð í kjölfarið.

„Það vill þannig til að ég var búinn að gera ákveðin plön áður en mér varð það ljóst að "come back-ið" væri í ár. Ég er víst að fara að gifta mig á laugardaginn og svo er brúðkaupsferð í kjölfarið. Ég á erfitt með að fresta brúðkaupinu þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir."

„Verðandi eiginkona mín er dyggur stuðningsmaður Hattar en Völsungur mætir einmitt Hetti á laugardaginn. Ég næ vonandi að horfa á leikinn á Völsungur TV áður en brúðarmarsinn fer að hljóma."

„Fer langt á góðum leikskilning og virkum talanda"
Baldur spilaði eins og áður segir í miðverði gegn Kára og leysti það hlutverki með mikilli prýði.

„Þó svo að ég hafi ekki spilað marga leiki sem hafsent þá hef ég ávallt talið mig vera sterkan varnarmann og lagt mig fram um að skila góðri varnarvinnu þegar ég spilaði framarlega á vellinum. Það á því vel við mig að spila sem hafsent þó hámarkshraði minn hafi lækkað umtalsvert. Maður fer langt á góðum leikskilning og virkum talanda."

„Kári er með hörkulið og reyndust okkur virkilega erfiðir. Ég steig nokkur feilspor en sem betur fer þá bökkuðum við allir hver annan upp þegar á reyndi, sérstaklega eftir að við misstum brimbrjótinn okkar af velli með rautt."

„Tveir erfiðir leikir"
Þessi deild, 2. deildin er ótrúlega spennandi. Völsungur er í fjórða sæti þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið er tveimur stigum á eftir tveimur efstu liðunum, Aftureldingu og Gróttu. Völsungur á eftir að spila við tvö lið sem eru að berjast fyrir lífi sínu í fallbaráttunni, Höttur og Tindastóll.

„Deildin er alveg hrikalega skemmtileg og fullt af flottum liðum og leikmönnum. Gæðin hafa komið mér á óvart."

„Það er allt enn opið á toppi sem á botni, það verður háspenna allt til enda. Toppliðin eiga til að mynda öll erfiða leiki eftir og svo eru Leiknir F., Höttur og Tindastóll í harðri baráttu við botninn. Svona spenna á að ýta við stuðningsmönnum þessara liða og skila fleirum á völlinn. Trúi ekki öðru en að það verði vel mætt á leiki í 2. deildinni næstu tvær helgar."

„Næsti leikur okkar er heimaleikur á móti Hetti, algjör úrslitaleikur fyrir okkur þar sem við erum í þeirri stöðu að þurfa sigur í Inkasso-baráttunni. Leikur þar sem allt er undir. Ég trúi því að menn séu í fótbolta til að spila sem flesta leiki af þessum toga. Þess vegna treysti ég því að strákarnir mæti sterkir til leiks og taki stigin þrjú."

„Það sama gildir um leikinn á móti Tindastól á Króknum sem mun eins og Höttur selja sig dýrt í baráttunni um öruggt sæti í deildinni. Þetta eru tveir erfiðir leikir," sagði Baldur að lokum.

Leikmaður 1. umferðar: Adam Örn Guðmundsson - Fjarðabyggð
Leikmaður 2. umferðar: Páll Sindri Einarsson - Kári
Leikmaður 3. umferðar: Ásgeir Kristjánsson - Völsungur
Leikmaður 4. umferðar: Milos Ivankovic - Huginn
Leikmaður 5. umferðar: Ásgeir Kristjánsson - Völsungur
Leikmaður 6. umferðar: Brynjar Kristmundsson - Þróttur V.
Leikmaður 7. umferðar: Daniel Badu - Vestri
Leikmaður 8. umferðar: Brynjar Árnason - Höttur
Leikmaður 9. umferðar: Hafliði Sigurðarson - Afturelding
Leikmaður 10. umferðar: Stefan Antonio Lamanna - Tindastóll
Leikmaður 11. umferðar: Kristófer Melsteð - Grótta
Leikmaður 12. umferðar: Elvar Baldvinsson - Völsungur
Leikmaður 13. umferðar: Pétur Bjarnason - Vestri
Leikmaður 14. umferðar: J.C. Mack - Vestri
Leikmaður 15. umferðar: Mykolas Krasnovskis - Leiknir F.
Leikmaður 16. umferðar: Loic Ondo - Afturelding
Leikmaður 17. umferðar: Pétur Theodór Árnason - Grótta
Leikmaður 18. umferðar: Alexander Örn Kárason - Kári
Leikmaður 19. umferðar: Andri Freyr Jónasson - Afturelding
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner