Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er sífellt líklegra að Heimir Hallgrímsson muni taka við sem þjálfari Stjörnunnar. Heimir tæki þá við af Þorvaldi Örlygssyni sem tók við sem rekstrarstjóri knattspyrnudeildar á dögunum.
Helgi Hrannarr Jónsson, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar, vildi ekki staðfesta að Stjarnan væri í viðræðum við Heimi þegar Fótbolti.net náði tali á honum í dag.
„Við erum að vinna í því að koma þjálfaramálunum áfram. Ég get staðfest það að Stjarnan klárar þjálfaraferlið sitt í þessari viku," sagði Helgi Hrannarr við Fótbolta.net í dag.
Heimir er án starfs í fótboltanum eftir að hætt með Al Arabi í Katar fyrr á þessu ári. Hann er fyrrum landsliðsþjálfari þar sem hann stýrði landsliðinu inn á tvö stórmót.
Ágúst Gylfason, Jón Þór Hauksson og Ólafur Kristjánsson eru meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við starfið hjá Stjörnunni.
Athugasemdir