Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 15. júní 2022 12:00
Elvar Geir Magnússon
Ljóst hverjum íslensku liðin geta mætt ef þau fara áfram í Evrópukeppnunum
Bóas er stuðningsmaður KR númer eitt. KR mætir Bröndby ef liðið slær út pólska liðið Pogon Szczecin.
Bóas er stuðningsmaður KR númer eitt. KR mætir Bröndby ef liðið slær út pólska liðið Pogon Szczecin.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Kristall Máni Ingason, leikmaður Víkings.
Kristall Máni Ingason, leikmaður Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í höfuðstöðvum UEFA hafa menn nóg að gera við að draga þessa dagana. Í morgun var dregið í 2. umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar og Sambandsdeildarinnar og ljóst hverjir mögulegir mótherjar íslensku liðanna verða ef þau komast þangað.

Víkingur
Eins og fjallað hefur verið um þá mætir Víkingur liði Levadia Tallinn frá Eistlandi í undanúrslitum umspilsins fyrir forkeppni Meistaradeildarinnar 21. júní. Sigurliðið leikur svo til úrslita þremur dögum síðar við lið frá San Marínó eða Andorra um sæti í forkeppninni. Umspilið fer fram á Víkingsvelli.

Ef Víkingur vinnur umspilið fer liðið í tveggja leikja einvígi við Svíþjóðarmeistara Malmö í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.

Mögulegir mótherjar Víkings:
Ef Íslands- og bikarmeistararnir koma á óvart og vinna Malmö mun liðið mæta Ballkani frá Kosóvó eða Zalgiris frá Litháen í næstu umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.

Ef Víkingur kemst í viðureignina gegn Malmö en tapar þá fer liðið inn í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar og leikur gegn The New Saints frá Wales eða Linfield frá Norður-Írlandi.

Ef Víkingur tapar gegn Levadia Tallinn í umspilinu mun liðið fara inn í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar og leikur gegn Shamrock Rovers frá Írlandi eða Hibernians frá Möltu.

Og ef Víkingur tapar úrslitaleik umspilsins þá fer liðið einnig inn í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar en mætir Pyunik frá Armeníu eða Cluj frá Rúmeníu.

Breiðablik:
Í gær varð ljóst að Blikar munu leika gegn Santa Coloma frá Andorra í 1. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar. Kópavogsliðið er talsvert sigurstranglegra í því einvígi og með sigri myndi það þá mæta Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi eða Llapi frá Kosóvó í 2. umferðinni.

KR:
KR-ingar eiga erfitt verkefni fyrir höndum gegn pólska liðinu Pogon Szczecin í 1. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar. Sigurliðið í einvíginu mun mæta danska liðinu Bröndby í 2. umferðinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner