Daniel Maldini varð í gær þriðji úr Maldini-fjölskyldunni til þess að spila A-landsleik með Ítalíu en hann kom inn af bekknum í 4-1 sigri á Ísrael í Þjóðadeildinni.
Daniel er sonur Paolo Maldini sem er einhver mesta goðsögn í sögu ítalska boltans.
Hann kom inn af bekknum á 73. mínútu leiksins og skráði sig, pabba sinn og afa sinn, Cesare, í sögubækurnar, en þetta er í fyrsta sinn sem þrjár kynslóðir úr sömu fjölskyldunni spila fyrir ítalska landsliðið.
Cesare lék sinn fyrsta A-landsleik árið 1960 og þá lék Paolo sinn fyrsta leik árið 1988.
Daniel er 23 ára gamall sóknarsinnaður leikmaður sem er á mála hjá Monza, en hann var áður hjá Milan.
Fara í hóp með tveimur íslenskum fjölskyldum
Þetta er þó ekkert nýtt fyrir Íslendingum. Guðjohnsen-fjölskyldan náði þessum áfanga árið 2021 er Sveinn Aron kom inn á sem varamaður gegn Liechtenstein.
Afi hans, Arnór, lék sinn fyrsta leik árið 1979 og þá spilaði faðir Sveins, Eiður Smári, sinn fyrsta leik árið 1996 er hann kom eftirminnilega inn á sem varamaður fyrir Arnór í 3-0 sigri á Eistlandi.
Það merkilega við þetta er að allir hafa skorað fyrir A-landsliðið og er eina fjölskyldan til að afreka það. Andri Lucas, yngri bróðir Sveins, hefur einnig skorað með landsliðinu og bara nú síðast í 4-2 tapinu gegn Tyrklandi í gær.
Árinu 2020 lék Ísak Bergmann Jóhannesson sinn fyrsta A-landsleik en faðir hans og afi, Jóhannes Karl Guðjónsson og Guðjón Þórðarson, léku báðir með landsliðinu. Jóhannes Karl lék sinn fyrsta landsleik árið 2001 en Guðjón lék eina landsleik sinn árið 1985.
Weiss-fjölskyldan var sú fyrsta til að koma sér í hópinn. Allir bera nafnið Vladimir Weiss. Afinn spilaði fyrsta leikinn fyrir Tékkó-Slóvakíu árið 1964, Weiss II lék með Tékkó-Slóvakíu árið 1988 og síðar Slóvakíu og þriðji lék einmitt sinn fyrsta leik gegn í vináttuleik Slóvakíu gegn Íslandi árið 2009.
Sama á einmitt við um Alonso-fjölskyldunni. Allir þrír bera sama nafn, Marcos Alonso. Afinn, betur þekktur sem Marquitos, lék með spænska landsliðinu frá 1955 til 1960, pabbinn Marcos Alonso Pena frá 1981 til 1985 og þá lék sá yngsti með landsliðinu frá 2018 til 2022, en hann var einmitt síðast á mála hjá Barcelona í heimalandinu.
Kluivert er einnig með í umræðunni en afinn lék þó ekki með sama landsliði og sonurinn og barnabarnið. Kenneth (afinn) lék með landsliði Súrínam á meðan Patrick og Justin eiga leiki með Hollandi.
???????????? Paolo Maldini’s son Daniel makes his debut for Italy in Udine, same pitch where Paolo made his debut as Milan legend.
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) October 14, 2024
It’s first time ever in Italy history to see three players from same family wear the Azzurri shirt (Cesare, Paolo, Daniel Maldini). pic.twitter.com/ubAZ9QHz7G
Athugasemdir