Vitor Pereira þjálfari Wolves svaraði spurningum fréttamanna eftir 2-1 tap á útivelli gegn toppliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Liverpool var sterkara liðið í fyrri hálfleik og leiddi 2-0 en Úlfarnir tóku stjórn á leiknum í síðari hálfleik og hefðu getað jafnað. Matheus Cunha minnkaði muninn en tókst hvorki honum né liðsfélögunum að jafna.
„Ég er svekktur því fyrri hálfleikurinn hjá okkur var ekki góður. Við sýndum þeim alltof mikla virðingu og við megum ekki gera það. Við verðum að spila eftir okkar hugmyndafræði, sama hverjir andstæðingarnir eru. Í hálfleik bað ég strákana um að pressa Liverpool eins og við pressum vanalega í leikjunum hjá okkur og það gekk stórkostlega," sagði Pereira meðal annars eftir lokaflautið.
„Við skoruðum því miður ekki jöfnunarmark í síðari hálfleiknum en við hefðum átt það skilið. Jafntefli hefði verið sanngjörn niðurstaða.
„Við vorum frábærir í seinni hálfleik og sköpuðum mikið af vandamálum fyrir Liverpool. Þeir réðu varla við okkur."
Athugasemdir