Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fös 17. nóvember 2023 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gísli ræddi agabannið fræga - „Heimskulegasta dæmi sem ég hef lent í á ævinni"
'Þetta er það vitlausasta sem ég hef lent í'
'Þetta er það vitlausasta sem ég hef lent í'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Bíddu aðeins Gísli.'
'Bíddu aðeins Gísli.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað árið 2016.
Marki fagnað árið 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í september 2016 átti Breiðablik leik gegn ÍBV. Þeir Damir Muminovic og Gísli Eyjólfsson voru í agabanni og voru þess vegna ekki í byrjunarliði Breiðabliks í leiknum. Þeir byrjuðu á bekknum og Gísli inn á í leiknum. Breiðablik hafði unnið öruggan sigur í leiknum gegn Val á undan. Liðið var í Evrópubaráttu en tókst ekki að klára tímabilið í Evrópusæti.

„Það voru ákveðin agabrot þar sem menn voru aðeins of lengi úti á lífinu á föstudaginn. Menn voru ekki að drekka en menn voru of lengi úti," sagið Arnar Grétarsson, þáverandi þjálfari Breiðabliks, eftir leikinn.

„Það voru mistök af okkar hálfu að fara út á tónleika þegar það voru þrír dagar í leik en við vorum ekki að drekka eða eitthvað. Þetta var mjög pirrandi. Ég fékk nokkur símtöl því sumir héldu að maður hefði farið á djammið og gert allt vitlaust eins og þegar maður var yngri. Þetta var alls ekki þannig. Þetta er bara búið og það þarf ekki að ræða það meira," sagði Damir Muminovic í viðtali við Fótbolta.net um veturinn.

Gísli var gestur í Gula Spjaldinu sem er hlaðvarpsþáttur sem Albert Brynjar Ingason sér um. Þar ræddi Gísli um agabannið.

Þriðji maðurinn slapp við allt umtal
„Þetta er heimskulegasta dæmi sem ég hef lent í á ævinni. Ég hef aldrei talað um þetta í viðtali, en þetta er það vitlausasta sem ég hef lent í," sagði Gísli.

„Ég, Damir og Höskuldur erum að leggja íbúð hjá Gauja. Það er gott að henda Högga núna fyrir rútuna því hann lítur út fyrir að vera svo saklaus í þessu. Höggi stingur upp á því að fara á Októberfest. Þetta var föstudagskvöld, frí á æfingu daginn eftir og leikur gegn ÍBV á mánudag - sem sagt þrír dagar í leik. Við vorum ekki að drekka, vorum edrú. Um eitt leytið sagði ég við Högga hvort við ættum ekki að fara drífa okkur heim. Þá var Höggi að reyna við einhverja skvísu, var ekki alveg að ná að draga hana inn og vill bíða aðeins lengur. Það endar með að við förum heim um svona hálf þrjú og ég er kominn heim klukkan þrjú." Gísli segir að hann hafi verið á bíl þetta kvöld og því beðið eftir Höskuldi.

„Ég hélt að ég hefði ekki gert neitt af mér. Svo bara springur allt upp og Damir segir að þeir hafi frétt af þessu. „Fréttu hvað?" spurði ég. Allt verður brjálað og þegar við mætum á sunnudagsæfingu þá sagði Addi okkur þremur að koma inn til sín. Hann var brjálaður og ég skildi ekki af hverju. Hann sagði að við gætum útkljáð málið með því að biðja samherja okkar afsökunar. Þá færi þetta ekkert lengra. Við sögðum fyrirgefðu við alla liðsfélagana fyrir að hafa verið úti of lengi," sagði Gísli sem segir að það hafi ekki verið neinn settur útivistartími og ekki hafi verið búið að taka neitt fram varðandi hvort það mætti fara á Októberfest eða ekki.

„Addi setur okkur á bekkinn, alla þrjá. Svo erum við að tapa 1-0 og hann setur mig og Högga inn á í hálfleik. Höggi skorar í leiknum, jafnar í 1-1. Addi segir í viðtali eftir leikinn að ég og Damir höfum verið í agabanni. Höggi slapp frá þessu öllu út af því hann skoraði."

Gísli segir að Addi hafi trúað því að leikmennirnir hefðu verið edrú þetta kvöld. Þrátt fyrir það voru þeir settir í agabann.

„Við þurftum held ég þrjú stig í síðustu þremur leikjunum til að tyggja Evrópu. Við náðum einu stigi í þessum leikjum. Mér fannst þetta svo mikill óþarfi, við vorum á geggjuðu róli eins og t.d. í Valsleiknum á undan," sagði Gísli sem var í góðum takti fyrir agabannið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner