Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fös 18. ágúst 2023 10:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Anton Ari snýr aftur í næsta leik - „Hann á skilið virðingu"
Anton Ari Einarsson.
Anton Ari Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Atli Bragason.
Brynjar Atli Bragason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anton Ari Einarsson mun snúa aftur í markið hjá Breiðabliki þegar liðið spilar við Keflavík í Bestu deildinni næstkomandi sunnudag.

Anton Ari var ekki með í síðustu tveimur leikjum gegn KA og Zrinjski Mostar eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í rammanum. Hann hefur fengið mikla gagnrýni á tímabilinu vegna mistaka sem hann hefur gert.

Brynjar Atli Bragason, varamarkvörður Breiðabliks, hefur spilað þessa tvo leiki og staðið sig með prýði. Anton mun þó koma aftur í markið á sunnudaginn.

„Ég myndi bara segja að Brynjar Atli hefur sýnt það og sannað að hann er frábær markvörður. Á hann stöðuna? Nei, hann á hana ekki. Ég get sagt þér það að Anton mun byrja á sunnudaginn," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir leikinn gegn Mostar í gær.

„Brynjar er búinn að sýna það að hann er traustsins verður. Hann er frábær markvörður og frábær einstaklingur. Það er alveg það sama með Anton, frábær markvörður og er búinn að reynast mér gríðarlega vel síðan ég kom í félagið. Ég er búinn að biðja hann um hluti sem hafa verið óþægilegir fyrir hann; dregið hann harkalega úr þægindarammanum. Hann hefur gert það allt með bros á vör."

„Menn lenda stundum í skafli og þá er oft gott að stíga til hliðar og núllstilla sig. Anton er frábær markvörður og við erum heppnir að vera með tvo góða markmenn. Það er ljómandi gott að Brynjar geti stigið inn eins og í dag þegar Anton þarf smá hvíld. Anton er búinn að vinna fleiri leiki en hann hefur tapað fyrir okkur undanfarin ár. Hann á skilið virðingu sem mér finnst hann ekki alltaf fá. Hann er einn besti markvörðurinn á Íslandi."

„Maður gengur stundum í gegnum erfiða tíma og hann er ekki eini maðurinn í þessu liði sem hefur átt erfiða tíma í sumar. Þetta er búið að vera tricky tímabil," sagði Óskar.

Brynjar Atli var í viðtali eftir leikinn í gær þar sem hann var spurður út í möguleikann á byrjunarliðssæti. Hann sagðist gera engar kröfur á það.

„Mér finnst frammistaðan alveg verðskulda það en ég geri engar kröfur um það. Það er enginn leikmaður sem gerir kröfu um að byrja; það er Óskar sem sér um að velja liðið en ég treysti Óskari 100% að velja besta liðið til að takast á við næstu verkefni. Ég þarf bara að kyngja því ef ég byrja ekki," sagði Brynjar.

Hægt er að horfa á bæði viðtölin sem voru tekin eftir leikinn í gær í spilurunum hér fyrir neðan.
Óskar Hrafn: Þeir voru í köðlunum
Brynjar Atli: Fyrst og fremst þakklátur
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner