Fulham ætlar að styrkja hópinn verulega í sumarglugganum en félagið er á eftir að minnsta kosti fimm leikmönnum. Þetta kemur fram í Evening Standard.
Enska úrvalsdeildarfélagið hefur átt í viðræðum við brasilíska félagið Fluminense um miðjumanninn André.
Fulham hefur þegar náð samkomulagi við leikmanninn en nú er unnið að því að ná saman með Fluminense um kaupverð. Hann á að leysa Joao Palhinha af hólmi sem gekk í raðir Bayern München á dögunum.
Þá er félagið einnig á eftir skoska leikmanninum Scott McTominay, sem er á mála hjá Manchester United. Fulham á enn eftir að fá að vita hvað United vill fá fyrir McTominay sem mun að öllum líkindum yfirgefa uppeldisfélagið í sumar.
Fulham ætlar sér þá að leggja fram nýtt tilboð í Emile Smith Rowe, leikmann Arsenal. Á dögunum hafnaði Arsenal 30 milljóna punda tilboði Fulham.
Marco Silva, stjóri Fulham, vill þá bæta tveimur miðvörðum við hópinn. Trevoh Chalobah, varnarmaður Chelsea, hefur verið orðaður við félagið síðasta mánuðinn og þá er Teden Mengi hjá Luton einnig sagður álitlegur kostur.
Athugasemdir