Pep Guardiola svaraði spurningum á fréttamannafundi fyrir leik Manchester City gegn Villarreal í Meistaradeildinni sem fer fram annað kvöld.
Hann sagði að miðjumaðurinn Rodri verður ekki með vegna vöðvameiðsla og var svo spurður út í Rayan Cherki, sem nýkominn til baka eftir meiðsli.
„Ég held ekki að Rodri nái leikjunum gegn Villarreal eða Aston Villa. Hann verður ekki frá í langan tíma, þetta eru vöðvameiðsli. Við verðum að passa okkur með hann svo hann meiðist ekki aftur," sagði Pep.
„Cherki er einn af gæðamestu leikmönnum sem ég hef séð á mínum ferli. Tæknilega séð er hann í hæsta gæðaflokki, hann er með ótrúleg einstaklingsgæði. Spurningin er hvernig hann aðlagast liðinu og les leikinn.
„Einn af hans helstu kostum er hversu rólegur hann er, það er eins og hann finni ekki fyrir pressu. Í hvert skipti sem hann fær boltann erum við komnir í betri stöðu."
Cherki er 22 ára gamall og er búinn að skora eitt mark í þremur leikjum frá komu sinni til Manchester. Hann er þó ekki búinn að spila 90 mínútur samanlagt í þessum þremur leikjum.
Man City er að gera flotta hluti eftir miklar breytingar á leikmannahópinum. Liðið er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir átta umferðir, þremur stigum á eftir toppliði Arsenal.
Athugasemdir