Freyr Alexandersson er tekinn við stjórnartaumunum hjá Brann og hefur síðustu daga verið að mynda sér skoðun á leikmannahópi félagsins.
Hann sagði í viðtali við Fótbolta.net í síðustu viku að hann væri að skoða íslenska markaðinn í leit að styrkingu.
Hann sagði í viðtali við Fótbolta.net í síðustu viku að hann væri að skoða íslenska markaðinn í leit að styrkingu.
„Við munum mjög líklega bæta leikmönnum við. Núna er leikmannaglugginn opinn og það er ýmislegt í gangi," sagði Freyr.
Ertu að skoða einhverja íslenska leikmenn?
„Að sjálfsögðu geri ég það. Ég hef unnið með mörgum leikmönnum og Íslendingar koma klárlega til greina."
Brann er mikið Íslendingafélag og síðast þegar liðið varð norskur meistari þá voru þrír Íslendingar í liðinu; Ármann Smári Björnsson, Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason.
„Þeir Íslendingar sem hafa spilað hér hafa skilað góðri vinnu og eru ofboðslega vel liðnir. Það er vel talað um þá og það er mikilvægast. Við þurfum að taka þessu alvarlega. Við erum erindrekar íslenska fótboltans og þurfum að taka það alvarlega. Ég er alltaf meðvitaður um að ég er ryðja veginn fyrir öðrum og það sama gildir um leikmennina okkar."
Á meðal Íslendinga sem hafa verið orðaðir við Brann síðustu daga eru Ari Sigurpálsson, kantmaður Víkinga, Logi Tómasson bakvörður Strömsgodset og sóknarleikmaðurinn Sævar Atli Magnússon sem er að renna út á samningi hjá Lyngby.
Athugasemdir