Ísland 3 - 0 Ungverjaland
1-0 Hilmir Rafn Mikaelsson ('15)
2-0 Antal Yakoobishvili, sjálfsmark ('36)
3-0 Hinrik Harðarson ('70)
1-0 Hilmir Rafn Mikaelsson ('15)
2-0 Antal Yakoobishvili, sjálfsmark ('36)
3-0 Hinrik Harðarson ('70)
Íslenska U21 landsliðið mætti því ungverska í dag í vináttuleik sem fram fór á Pinatar Arena á Spáni.
Hilmir Rafn Mikaelsson skoraði fyrsta mark leiksins á 15. mínútu. Hann skoraði glæsilegt skallamark eftir frábæran undirbúning frá Helga Fróða Ingasyni sem fór illa með varnarmann Ungverja úti á vinstri kantinum. Þetta var annað mark Hilmis fyrir U21 og kom það í hans 10. landsleik.
Á 36. mínútu varð Antal Yakoobishvili fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir fyrirgjöf frá Daníel Frey Kristjánssyni. Fyrirliðinn var á undan Hilmi Rafni í boltann en setti hann í eigið net. Það var Helgi Fróði sem átti sendinguna á Daníel Frey en þeir eru jafnaldrar sem léku saman í yngri flokkum Stjörnunnar.
Það var svo Hinrik Harðarson sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir yngri landsliðin, í sínum fyrsta leik með U21 landsliðinu. Markið kom eftir skyndisókn en það var Hilmir Rafn sem sendi Hinrik í gegn, Hinrik átti laglegt skot úr vítateig Ungverja sem fór af nærstönginni og í netið. „Hvað gerir Hinrik Harðarson hérna, með skotið OG STÖNGIN INN! Hinrik Harðarson er að opna markareikning sinn fyrir íslenska landsliðið, setur'ann á nærstöngina. Frábær skyndisókn hjá íslenska liðinu," sagði Magnús Haukur Harðarson, bróðir Hinriks, sem lýsti markinu á KSÍ TV.
Í lok leiks átti Ungverjaland aukaspyrnu og eftir hana kom lokaflautið. Hlynur Freyr Karlsson, varnarmaður íslenska liðsins, lá hins vegar eftir og hélt um höfuð sér. Vonandi eru meiðsli hans ekki alvarleg.
Ísland mætir næst Skotlandi á þriðjudag í vináttuleik.
Athugasemdir