Hilmir á að baki níu leiki með U21 landsliðinu. Hann er áfram gjaldgengur í liðið og skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið í nóvember gegn Póllandi.
Íslenski U21 landsliðsmaðurinn Hilmir Rafn Mikaelsson var fyrr í þessum mánuði keyptur til norska félagsins Viking frá ítalska félaginu Venezia þar sem hann hefur verið samningsbundinn síðustu ár. Hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning í Stafangri.
Hilmir, sem er framherji, verður 21 árs eftir rúma viku. Hann er uppalinn hjá Kormáki en hélt í Grafarvoginn og gekk í raðir Fjölnis sumarið 2018. Þremur árum seinna var hann keyptur til Íslendingafélagsins Venezia og hélt til Feneyja.
Hann lék fyrri hluta ársins 2023 á láni hjá Tromsö og svo allt síðasta tímabil með Kristiansund á láni. Hann skoraði þrjú mörk og lagði upp eitt á síðasta tímabili fyrir Kristiansund. Hann er nú kominn í talsvert stærra félag því Viking endaði í 3. sæti deildarinnar á síðasta tímabili og verður í Evrópukeppni á komandi tímabili.
Hilmir, sem er framherji, verður 21 árs eftir rúma viku. Hann er uppalinn hjá Kormáki en hélt í Grafarvoginn og gekk í raðir Fjölnis sumarið 2018. Þremur árum seinna var hann keyptur til Íslendingafélagsins Venezia og hélt til Feneyja.
Hann lék fyrri hluta ársins 2023 á láni hjá Tromsö og svo allt síðasta tímabil með Kristiansund á láni. Hann skoraði þrjú mörk og lagði upp eitt á síðasta tímabili fyrir Kristiansund. Hann er nú kominn í talsvert stærra félag því Viking endaði í 3. sæti deildarinnar á síðasta tímabili og verður í Evrópukeppni á komandi tímabili.
„Það er geggjað að vera orðinn leikmaður Viking, geggjaður hópur og góð blanda, ungir og reynslumiklir leikmenn í hópnum. Aðdragandinn var bara að ég heyrði af áhuga og ég vildi kýla á þetta, þetta gerðist allt mjög hratt og Viking vildi fá mig sem fyrst til félagsins," segir Hilmir Rafn.
Hvernig er að yfirgefa Venezia á þessum tímapunkti?
„Að vera kominn frá Venezia er fínt finnst mér, auðvitað eru Feneyjar frábær staður og klúbburinn mjög fínn. Mér fannst kominn tími á að ég færi í klúbb þar sem ég get þróað minn leik betur og fengið góða og örugga hjálp með það."
„Það var talað um það að ég kæmi til baka frá Kristiansund og myndi berjast fyrir sæti í liðinu en það gekk bara ekki upp, stundum er það þannig. Ég er sáttur með tímann minn á Ítalíu, ég lærði margt fótboltalega séð en líka sem einstaklingur og það er eitthvað sem mun alltaf hjálpa mér."
Það hafa margir Íslendingar verið hjá Viking, áttu spjall við einhvern leikmann eða einhvern sem ráðleggur þér áður en þú semur í Noregi?
„Nei, ég átti svo sem ekkert þannig spjall við neinn, en ég er samt stundum í sambandi við Bjarka (Stein Bjarkason) og Mikka (Mikael Egil Ellertsson) og hef mjög gaman af þeim. Við vorum mikið saman úti."
Hvernig var tíminn hjá Kristiansund?
„Tíminn í Kristiansund var mjög fínn, gaman að fá að kynnast Binna (Brynjólfi Willumssyni) aðeins áður en hann fór til Groningen. Það er mjög gott fólk að vinna í kringum klúbbinn, maður fann það. Tímabilið mitt var allt í lagi, fyrsta heila tímabilið mitt í meistaraflokki, spilaði mikið en ég átti samt að gera betur þegar það kemur að mörkum."
Hvað langar þig að afreka með Viking?
„Auðvitað að vinna deildina með þeim. Þetta er stórt lið sem ætlar sér stóra hluti og maður finnur það að það er hungur í öllum, leikmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum. Ég held að þetta verði gott tímabil fyrir mig og Viking."
Þú ert framherji og mörkin til þessa eru kannski ekkert ýkja mörg í meistaraflokki. Keppnisleikirnir eru 48 og mörkin eru átta. Er það eitthvað sem þú pælir mikið í?
„Auðvitað langar mig að skora fleiri mörk, það er ekki spurning og á seinasta tímabili hefði ég átt að skora fleiri en ég gerði. Það er gott að vera kominn í lið þar sem ég get komið mér almennilega fyrir og fengið að kynnast leikmönnunum sem ég spila með almennilega. Mörkin verða fleiri í ár ég get fullyrt það," segir Hilmir Rafn.
Athugasemdir