Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   sun 21. apríl 2024 10:00
Brynjar Ingi Erluson
18 ára hetja Framara - „Höfum engan áhuga á að lána hann aftur austur í sumar“
Freyr Sigurðsson fagnar sigurmarkinu í leiknum
Freyr Sigurðsson fagnar sigurmarkinu í leiknum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Sigurðsson, 18 ára gamall leikmaður Fram, var óvænt hetja liðsins í 1-0 sigrinum á KR á AVIS-vellinum í Laugardal í gær en Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, segir þetta skemmtilega týpu sem passar vel inn í hóp liðsins.

Lestu um leikinn: KR 0 -  1 Fram

Hornfirðingurinn ungi hefur æft og spilað með yngri flokkum Fram síðastliðin tvö ár.

Hann hefur komið til Reykjavíkur yfir vetrartímann og þá spilað með Fram.

Síðasta sumar spilaði hann 19 leiki með Sindra í 2. deildinni og skorað 2 mörk er liðið féll niður í 3. deild.

Freyr var óvænt í byrjunarliði Fram fyrir leikinn gegn KR og þakkaði traustið með því að skora sigurmarkið á 7. mínútu leiksins eftir sendingu frá Magnúsi Inga Þórðarsyni og það í fyrsta byrjunarliðsleiknum í efstu deild.

„Freyr er búinn að vera undanfarin tvö ár í Fram yfir vetrarmánuðina, er í skóla í bænum en hefur síðan farið á sumrin á láni til Sindra. Ég tók við þessum hóp í nóvember og hann hefur verið ótrúlega flottur. Skemmtileg týpa, lítill, ofboðslega tæknilega góður, hraður og nær einhvern veginn að smokra sér framhjá mönnum. Hann felur sig dálítið, alveg stórkostlegur karakter og gaman að honum.“

„Við höfum engan áhuga á að lána hann aftur austur í sumar og ég var alveg harðákveðinn í því að hann myndi fá mínútur hjá mér. Hann er búinn að koma inn á í fyrstu tveimur, svo byrjar hann hér í dag og skorar sigurmarkið og fyrsti leikur í efstu deild. Stórkostleg byrjun fyrir hann, en hann eins og aðrir verður að leggja sig fram til að halda sæti sínu eða fá sénsinn aftur.“


Tryggvi Snær Geirsson var tæpur eftir tapið gegn Víkingi og var ákveðið að taka enga sénsa með hann. Freyr fékk því tækifærið og nýtti það afskaplega vel.

„Tryggvi var örlítið tæpur í öxlinni eftir Víkingsleikinn og það var allt of mikil áhætta að láta hann byrja. EItthvað högg hefði sett hann úr jafnvægi og ákváðum að taka ekki neina sénsa með hann og láta bara Frey spila. Við töldum það henta vel á móti KR-lið sem pressar hratt og hátt og þá er gott að hafa einn lítinn snaggaralegan sem getur snúið sig út úr. Hann gerði það oft vel, en þetta er frábær reynsla fyrir hann. Hann hefur verið eins og svampur í allan vetur, sýgur allt inn sem maður segir,“ sagði hann í lokin.
Hlegið þegar Rúnar mismælti sig - „Öskraði KR og KR fékk innkastið"
Hetja Framara valdi félagið fram yfir FH - „Getur ekki orðið betra"
Athugasemdir
banner
banner