Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 22. september 2021 17:13
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Guðmann yfirgefur FH - „Auðvitað er ég mjög ósáttur"
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Guðmann Þórisson fær ekki nýjan samning hjá FH, það kom í ljós í gær. Samingurinn rennur út eftir tímabilið sem lýkur um næstu helgi. Rætt var um Guðmann í hlaðvarpsþættinum Steve Dagskrá í gærkvöldi og komu þessar upplýsingar þar fram.

Fótbolti.net heyrði í Guðmanni í dag og staðfesti hann tíðindin.

„Ég get staðfest það núna í dag að í gær var ég látinn vita að ég yrði ekki áfram hjá FH. Ég verð að virða það en ég er auðvitað mjög ósáttur. Ég er orðinn mikill FH-ingur og ætlaði mér að reyna enda ferilinn hjá FH. Það á örugglega að reyna yngja upp og ég skil það alveg. Maður getur ekki grenjað yfir þessu lengi," sagði Guðmann.

Tekur enga sénsa eftir höfuðhögg
Hvers vegna varstu ekki með í síðasta leik á móti Breiðabliki? „Ég fékk höfuðhögg um daginn og ákvað að taka enga áhættu. Við erum og verðum í sjötta sæti og var meðvitaður um að ég væri að renna út á samningi. Ég ákvað í samráði við þjálfarana að ég myndi hvíla þessu síðustu tvo leiki."

Liggur ekkert á
Hvernig horfir framhaldið við þér? „Ég fékk að heyra þetta í gær, ég hélt ég myndi enda ferilinn hjá FH. Mér finnst ég eiga eitthvað eftir. Síðustu þrjú ár er ég búinn að vera mjög heill miðað við árin þar á undan, heilt yfir verið heill og í fínu standi. Ég þarf að skoða málin og ég er ekkert mikið að flýta mér, það liggur ekkert á."

Ánægður með Óla Jó
Ert þú búinn að vera ánægður með hvernig Ólafur Jóhannesson hefur komið inn í hlutina? „Já, það sáu allir að það þurfti einhverjar breytingar. Ég fílaði Loga mjög vel en Óli hefur komið hrikalega vel inn. Ég dýrka alveg Óla Jó eftir þessa mánuði sem við vorum saman hjá FH. Það verður gaman að sjá hvaða þjálfari stýrir FH á næsta ári."

Er ekki fínt að byrja á mér?
Á meðan þjálfaramálin eru óljós, er þetta þá ákvörðun stjórnar að þú verðir ekki áfram? „Nei, ég get ekki sagt neitt en mér finnst voða líklegt að þeir í stjórninni eru búnir að ákveða eitthvað með þjálfarana. Mér finnst það líklegt fyrst þeir taka þessa ákvörðun með mig. Ég er að verða gamall leikmaður og skil alveg að þeir vilja yngja upp. Er ekki fínt að byrja á mér?"

Verður að vera skemmtilegt - Ætlar ekki að hætta
Ertu opinn fyrir því að fara í lið í næst efstu deild eða þarf nýtt lið að vera í efstu deild? „Ég þarf að skoða það vel. Þetta eru síðustu árin á ferlinum og það þarf að vera eitthvað sem er skemmtilegt. Maður er líka í þessu til að hafa gaman."

Er 100% að við fáum að sjá Guðmann Þórisson á fótboltavelli næsta sumar? „Já, það er ég alveg viss um. Síðustu ár hef ég verið laus við öll stór meiðsl og persónulega, fyrir utan kannski 1-2 leiki, fannst mér ganga mjög vel. Á meðan maður er heill og það gengur fínt þá sé ég enga ástæðu til að hætta. Ég er ekki að segja að ég verði að spila þangað til ég verði 39 ára eins og sumir en ég hef fulla trú á því að ég spili næsta sumar."

Einhver lokaorð? „Ég vil skila hrikalega góðri kveðju til þeirra sem koma að öllu hjá FH og á strákana í liðinu," sagði Guðmann.


Athugasemdir
banner
banner
banner