Íslenski landsliðsmaðurinn Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliði sænska úrvalsdeildarliðsins Elfsborg er það vann Sirius 3-0 í dag en hann gerði fyrstu tvö mörk liðsins í leiknum á meðan Hákon Rafn Valdimarsson hélt hreinu þriðja leikinn í röð.
Sveinn Aron hafði aðeins spilað 43 mínútur í sænsku deildinni fram að leiknum í dag en fékk loksins að byrja sinn fyrsta leik fyrir liðið og þakkaði svo sannarlega traustið.
Fyrra markið kom á 4. mínútu. Simon Strand kom með laglega fyrirgjöf á nærstöngina á Svein Aron sem skóflaði boltanum í netið áður en hann bætti við öðru marki á 28. mínútu.
Jeppe Okkels átti að þessu sinni fyrirgjöfina frá vinstri, inn í teiginn og rataði boltinn á kollinn á íslenska framherjanum sem stangaði hann í netið.
Sveinn fór af velli á 61. mínútu leiksins en Elfsborg vann leikinn 3-0 og er nú í 2. sæti deildarinnar með 45 stig þegar sex umferðir eru eftir. Hákon Rafn Valdimarsson var í marki Elfsborg og hélt hreinu þriðja leikinn í röð.
Hjörtur á toppnum - Ísak byrjaði í nágrannaslag
Árbæingurinn, Hjörtur Hermannsson, var í byrjunarliði Pisa sem gerði 1-1 jafntefli við Pordenone. Hann var í hægri bakverðinum en var skipt af velli í stöðunni 1-0, á 56. mínútu. Pordenone jafnaði í uppbótartíma síðari hálfleiks. Pisa er á toppnum með 20 stig.
Ísak Bergmann Jóhannesson var í byrjunarliði FCK sem tapaði nágrannaslagnum gegn Bröndby, 2-1. Ísak spilaði á miðjunni en fór af velli á 64. mínútu. Andri Fannar Baldursson og Hákon Arnar Haraldsson voru ónotaðir varamenn.
FCK er í öðru sæti með 25 stig, þremur stigum á eftir toppliði Midtjylland. Þá gerðu Silkeborg og OB 1-1 jafntefli. Stefán Teitur Þórðarson og Aron Elís Þrándarson byrjuðu báðir. Stefán varð fyrir hnjaski á 38. mínútu og neyddist til að fara meiddur af velli undir lok hálfleiksins. Aron Elís var skipt af velli á 83. mínútu. Silkeborg er í 5. sæti með 19 stig en OB í 7. sæti með 15 stig.
Davíð Kristján í geggjuðu formi í Noregi
Davíð Kristján Ólafsson heldur áfram góðu gengi sínu með Álasundi í norsku B-deildinni. Hann lagði upp annað mark liðsins í 2-2 jafnteflinu gegn Sandnes Ulf. Hann átti glæsilega fyrirgjöf með vinstri inn í teiginn og skoraði David Fällman örugglega.
Álasund er í 3. sæti með 48 stig og í harðri baráttu um sæti í efstu deild.
Bjarni Mark Antonsson var þá í byrjunarliði Brage sem gerði markalaust jafntefli við Sundsvall í sænsku B-deildinni, en hann fór af velli í uppbótartíma síðari hálfleiks.
Brage er í 13. sæti með 30 stig og berst fyrir lífi sínu í deildinni.
Andri Lucas Guðjohnsen kom þá inná sem varamaður á 60. mínútu er varalið Real Madrid tapaði fyrir Atlético Sanluqueño, 3-1, í spænsku C-deildinni.
Birkir Bjarnason var í byrjunarliði Adana Demirspor sem gerði 1-1 jafntefli við Sivasspor í tyrknesku úrvalsdeildinni. Birkir er fastamaður í liði Adana en honum var skipt af velli á 69. mínútu leiksins. Mario Balotelli skoraði fyrir Adana með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Adana er í 10. sæti með 13 stig.
Athugasemdir